148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

aðgengi að stafrænum smiðjum.

236. mál
[16:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil til að byrja með þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur kærlega fyrir samstarfið við þessa þingsályktunartillögu sem við unnum saman, bæði tillöguna og greinargerðina, og köstuðum á milli okkar. Þetta er vissulega mál þar sem formið þvælist dálítið fyrir okkur. Við ættum tvímælalaust bæði að vera 1. flutningsmaður. Eina ástæðan fyrir því að ég er 1. flutningsmaður er að ég kom með hugmyndina. Hei, eigum við að gera þetta saman? En það skiptir kannski ekki máli.

Eins og lagt var upp með var tillagan sú að verkefnið myndi enda í því að allir framhaldsskólanemendur yrðu með aðgang að stafrænum smiðjum. Vissulega er hugmyndafræðin um stafrænar smiðjur á þann hátt að allir séu með aðgang. En ef þær eru staðsettar þannig til að byrja með að framhaldsskólanemendur eru með aðgang og á réttu stigi fyrir menntunina, til að byrja með alla vega, til að kynna þessa tækni fyrir öðrum, þá er svo auðvelt að taka næsta skref. Ég hugsaði sem svo að tillagan myndi vaxa svo auðveldlega út frá þeim vettvangi. En af því að breytingartillagan er eins og hún er hérna vil ég einfaldlega þakka allsherjar- og menntamálanefnd og bara þinginu í kjölfarið, vonandi, kærlega fyrir að taka stærra skref. Það er bara einfaldlega þannig að með þessari breytingartillögu er þetta orðin þingsályktunartillaga þingsins. Það er ekki flóknara en það.

Aðeins um stafrænar smiðjur almennt og þá tækni sem er verið að vinna með þar, þá tel ég þessa tækni sem er unnið með í stafrænu smiðjunum vera jafn stórt skref fyrir mannlegt samfélag og það að finna upp stafrófið, prentvélina, pennann eða í rauninni bara internetið. Þetta er penni framtíðarinnar á það hvernig við búum til hluti. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að stíga þessi skref við að hjálpa til við menntun og kennslu á þessi tæki sem fyrst því að árangurinn sem mun verða er svo rosalega mikill. Þeim mun fyrr sem við byrjum á þessu, þeim mun meira fáum við til baka.

Mig langar til að skeyta þetta verkefni við annað verkefni sem er kannski ekki alveg skylt, en það byrjar fyrr í þessum hugsunum í menntakerfinu. Nýlega var sett af stað verkefni með Micro:bit fyrir tveimur árum undir forystu Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra. Þá var ég að vinna hjá Menntamálastofnun og við fengum það verkefni að koma Micro:bit, lítilli tölvu, í alla grunnskóla, sjötta og sjöunda bekk. Það verkefni innan Menntamálastofnunar tókst alveg gríðarlega vel. Allir skólar nema einn, held ég, sem var þá bara ekki með sjötta og sjöunda bekk, held ég að hafi verið, en allir skólar með sjötta og sjöunda bekk tóku inn tölvurnar. Það verkefni er t.d. í samstarfi við KrakkaRÚV og fleiri aðila.

Ég vona, ég hef reyndar ekki náð að fylgjast nægilega vel með verkefninu síðan þá en kíkt aðeins á þetta og mér var sagt að enn væri verið að dreifa þessum tölvum. Þetta verkefni passar svo vel við verkefnið um stafrænar smiðjur. Því að Micro:bit tölvan getur verið notuð sem stjórntæki fyrir svo margt sem er hægt að byggja utan um í stafrænu smiðjunum. Þó að upprunalega hafi tillagan verið miðuð að framhaldsskólunum á hún svo vel við í grunnskólunum líka. Alveg rosalega. Og ég kallaði eftir því, eða vonaðist til, að við myndum enda þar sem breytingartillagan er komin. Þannig að ég get í raun ekki sagt neitt annað en bara: Takk kærlega fyrir. Gangi ykkur vel.