148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

aðgengi að stafrænum smiðjum.

236. mál
[16:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi að lengja þessa umræðu mikið. Við virðumst öll mjög sammála um mikilvægi þessa máls og hvað það hefur fram að færa. Það er alveg ljóst að stafrænar smiðjur auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum. Þær auka tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfni til nýsköpunar í námi og atvinnulífi.

Þetta skapar líka vettvang fyrir nýsköpun og eflir samkeppnishæfni okkar, bæði fyrirtækja og menntastofnana. Mig langar því til að þakka fyrir þetta góða nefndarálit, eða þessa góðu þingsályktunartillögu og nefndarálitið. Og ég held að mjög vel fari á því að opna þetta frekar. Ég hlustaði á hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fjalla um það þegar hún var erlendis og sá svona fyrirbrigði þar. Ég hef einmitt labbað inn í svona — það er ekki hægt að kalla þetta stofnun, opið hús, í raun smiðju, þar sem nýsköpun er svo sannarlega til staðar og frjó hugsun. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt, fyrst verið er að fjárfesta í tækjum og tólum sem þessum á annað borð, að nýta það og gefa almenningi kost á að taka þátt í þessu. Ég held að þetta sé jákvætt að öllu leyti og ég er mjög ánægð með framgang þessa máls.