148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa áminningu. Ég var einmitt með punkt þar sem ég taldi upp þjónustugjöldin en gleymdi að minnast á hann. Þegar búið er að telja upp alla þá liði sem skal taka tillit til við ákvörðun gjaldsins sem á að innheimta gleymist líka að gera grein fyrir því að búið er að greiða með sköttum fyrir að búa til þessi gögn. Við erum búin að borga fyrir það.

Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á um endurnot opinberra upplýsinga, þetta var einhver reglugerð eða eitthvað því um líkt frá Evrópusambandinu sem kveður á um að ekki megi rukka fyrir opinber gögn nema með þessum sannaða tilkostnaði. Þegar við teljum upp launin og aðkeypta sérfræðiþjónustu, ferðir og uppihald sem ástæðu fyrir þjónustugjöldum, sem eru einmitt laun þeirra sem bjuggu til þessi gögn þegar allt kemur til alls, og við greiðum þau laun með sköttunum, þá erum við búin að því. Þetta verður í rauninni tvígreiðsla. Þetta tengist dálítið því sem við minntumst á varðandi uppflettinguna í þinglýsingaskránni. Ég er búinn að borga fyrir skráningu þessara gagna. Af hverju get ég þá ekki flett þeim upp á auðveldan og ódýran hátt án þess að þurfa að sækja um í tvíriti og fara í kjallarann, eitthvert þangað eins og The Hitchhiker's Guide kenndi okkur svo snilldarlega.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er held ég ansi langur bandormur, safnlagafrumvarp, sem þarf að fara í á næstunni til að þurrka út öll þessi gjaldskilyrði sem við byrjuðum að þurrka út með t.d. nýjum breytingum á lögum um fyrirtækjaskrá.