148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt einfalt er um þetta að segja: Heyr, heyr. Takk fyrir dæmin.

Ég vildi kannski enda þetta á einu dæmi í viðbót sem ég held að púsli þessu öllu saman, meira að segja umræðunni áðan líka. Við höfum á undanförnum árum og áratugum fjármagnað rannsóknir á íslensku og búin hefur verið til íslensk orðsifjabók og samheitaorðabók og íslensk orðabók á stafrænan hátt sem hefur núna verið gefin út á malid.is. Ókeypis meira að segja. En það var dálítil þrautaganga, ég verð að minnast aðeins á það, þar sem það er í samkeppnislögum að opinberir aðilar megi ekki vera í samkeppni við einhverja einkaaðila. Af því að það voru einhverjir einkaaðilar sem voru að gefa út orðabók var einhver vafi á því hvort hægt væri að gefa út svona orðabók á netinu, orðabók sem við erum búin að borga fyrir í ár og áratugi saman og ættum, að mér finnst, sannarlega að hafa opinn aðgang að. Nýlega, ég veit ekki hvernig það tókst, var alla vega farið í að gefa út þessa vefsíðu, malid.is.

Það væri áhugavert að vita hvort verið sé að borga einhver höfundagjöld þar á bak við eða hvernig það tókst að lokum. En mér finnst það dálítið kristalla þetta vandamál sem við erum að lenda í varðandi gjaldtöku og samkeppnisvandamál o.s.frv. að íslensk orðabók, sameign okkar, menningarsameign, tæki sem gerir okkur kleift að tala saman, sem við erum að nota til að skilja hvert annað, mátti ekki gefa út opinberlega ókeypis út af einhverjum takmörkunum sem við settum í lögum. Ég held að mjög viðeigandi sé að boða það að til verði safnlagafrumvarp sem fer í gegnum kostnað og gjaldskrár ýmissa stofnanna.