148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir. Ég man ekki eftir að ég hafi talað um kostnaðarábatagreiningu markmiða. Ég held að hv. þingmaður sé að vísa í það sem ég sagði um markmið þess að safna gögnum. Við þurfum að vita af hverju við erum að safna gögnum til að geta útskýrt af hverju við söfnum þeim til að byrja með og þá skipulagt hugbúnaðarsmíði og utanumhald, skýrslur og þar fram eftir götunum, og sett upp ákveðna stefnu til að ná þeim markmiðum sem gögnin eiga síðan að hjálpa okkur til við að taka í framhaldinu.

Ég átti t.d. við að við getum ekki notað gamlar útskýringar á því af hverju við söfnum ákveðinni tegund gagna en ekki öðrum eins og t.d. hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom að, af hverju við erum að safna upplýsingum um trúfélagaskráningu. Það gætu verið gamlar ástæður fyrir því sem eru kannski ekki viðeigandi í dag. Þá þurfum við að endurskoða þær og setja okkur markmið og spyrja: Miðað við þau markmið sem við ætlum að ná þarf þessa og þessa breytu?

Mig langar í viðbót, fyrst hv. formaður fjárlaganefndar bættist við í mælendahópinn, að varpa örstuttri spurningu til baka um nokkuð sem tengist þessu, það eru mörkuðu tekjurnar sem við samþykktum frumvarp um fyrr á þinginu. Þær tengjast þessum þjónustugjöldum á einhvern hátt, myndi ég halda. Þau renna væntanlega beint í ríkissjóð og svo þarf að greiða þau beint til þjóðskrár aftur. En ég man ekki hvort þjóðskrá féll undir eina af þessum undanþágum sem var sérstaklega sett til ráðherra um að ætti að greiðast til jafns við o.s.frv. Ef hv. formaður fjárlaganefndar gæti minnt mig á það, ég er ekki með það fyrir framan mig, væri það vel þegið.