148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minntist einmitt á gagnsæi fjármálaáætlunar. Vissulega sjáum við ekki fjármögnun einstakra stofnana í fjármálaáætlun en á sama tíma sjáum við fjárheimildir til málaflokksins minnka. Ein af skýringunum var tilfærsla á verkefnum. En við höfum aldrei séð útskýringarnar á breytingunum. Ég veit ekki hversu mikið af fjármögnuninni, minnkuðu fjármagni, útskýrist af tilfærslu verkefna til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og hversu mikla aukningu á móti má útskýra með þessum nýju verkefnum sem eru tilgreind í frumvarpinu. Það var í raun gagnrýni mín á ríkisfjármálaáætlunina sem slíka, það er verið að breyta en það er ekki útskýrt af hverju og hver áhrifin eru í upphæðum séð á næstu fimm árum. Það var ein af kjarnaspurningunum sem fjárlaganefnd sendi til ráðuneytisins, hver væru grunngjöld hvers málefnasviðs, hverju væri bætt við og síðan sundurliðaðar viðbæturnar eða frádrátturinn á hverju málefnasviði eftir helstu ástæðum. En við fengum bara heildarsummuna í plús eða mínus, ekki sundurliðaða. Þess vegna stendur maður eftir og klórar sér í hausnum og sér sameiningu stofnana, fullt af nýjum verkefnum, tilfærslu á einu verkefni, vissulega, og maður skilur ekki hvort fjármögnun sé til staðar til framtíðar eða ekki. Við förum kannski betur yfir það í umræðu um ríkisfjármálaáætlunina.