148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til þess að ræða aðeins og eiginlega eingöngu 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um þjónustugjöld sem nokkuð hafa verið rædd hér í dag. Ég sé það á umsögnum, sem sendar voru inn út af þessu máli, að einhverjir umsagnaraðilar virðast hafa áhyggjur af því að þessi grein, 5. gr., sé ekki nógu skýr. Það þarf að vera alveg skýrt að eingöngu sé verið að innheimta þjónustugjöld af þeirri þjónustu sem veitt er en engu öðru; þetta þurfi að vera bein gjöld, beinn kostnaður við veitingu þessarar þjónustu.

Maður veltir fyrir sér, þegar maður les þetta tiltekna ákvæði 5. gr., að þá er þetta auðvitað ansi vítt. Til dæmis má sjá í j-lið 1. mgr. 5. gr. að þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá megi innheimta fyrir öll verkefni sem þjónustunni er falin „skv. e-lið 2. mgr. 3. gr.“ Ef maður skoðar e-lið 2. mgr. 3. gr. þá segir þar, með leyfi forseta:

„Stofnunin getur samkvæmt ákvörðun ráðherra annast rekstur og varðveislu á öðrum opinberum skrám eða þróun og rekstur annarra opinberra tölvukerfa.“

Ef maður horfir bara á ákvæði j-liðar þá er það mjög vítt og óljóst og ómarkvisst, en þannig háttar líka til um aðrar línur og önnur ákvæði í 5. gr. Við sjáum til dæmis að í g-lið er talað um að Þjóðskrá Íslands sé heimilt að innheimta þjónustugjöld fyrir upplýsingar úr öðrum skrám sem stofnunin heldur hverju sinni og í h-lið sölu á sérhæfðri þjónustu vegna lögmæltra verkefna stofnunarinnar.

Í umsögn sem Reykjavíkurborg sendi allsherjar- og menntamálanefnd kemur einmitt fram að Reykjavíkurborg virðist hafa áhyggjur af þessu, að það sé verið að fara þannig í hlutina að þetta sé ekki nógu skýrt. Reykjavíkurborg gerir ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið í heild sinni, en telur nauðsynlegt að tekinn sé af allur vafi um að lögmælt þjónusta þjóðskrár, eins og til dæmis gerð kjörskrárstofna fyrir sveitarfélög, svo að dæmi séu tekin, sé ávallt undanþegin þjónustugjaldi. Þau telja, þ.e. í áðurnefndri umsögn Reykjavíkurborgar, að það sé ekki nógu skýrt í 5. gr. frumvarpsins að um tæmandi talningu sé að ræða á þeim verkefnum sem heimilt er að innheimta þjónustugjöld fyrir.

Ég verð eiginlega að taka undir það. Það er auðvitað mjög víðfeðmt hvaða heimild stofnunin hefur til að innheimta þjónustugjöld.

Í 2. mgr. 5. gr. segir, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun gjalda skal í gjaldskrá leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, framleiðslu, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskiptabúnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu lögbundinna verkefna stofnunarinnar, auk ferða og uppihalds og útlagðs kostnaðar.“

Þetta ákvæði 2. mgr. 5. gr. er auðvitað gríðarlega víðfeðmt. Í nefndarálitinu er sérstaklega talað um að ekki hafi komið til álita hvort einhver skörun væri við stjórnarskrána. Maður veltir fyrir sér, hvað varðar heimildina sem stofnunin fær til að innheimta þjónustugjöld, hversu gríðarlega víðfeðm hún er, hvort þarna sé raunverulega verið að leggja viðbótarskatt á almenning, af því almenningur greiðir fyrir starfsemi Þjóðskrár Íslands með skattgreiðslum sínum.

Það þarf að vera alveg skýrt, eins og við öll vitum, að þjónustugjöld séu eingöngu innheimt vegna beins kostnaðar, að ekki sé verið að blanda öðrum kostnaði við rekstur stofnunarinnar inn í þegar slík gjöld eru innheimt. Fyrir því eru mörg dómafordæmi frá Hæstarétti þar sem tekin hafa verið af öll tvímæli um þetta. Þá hefur umboðsmaður Alþingis líka komið vel inn á þessa hluti.

Í nefndarálitinu kemur fram að á fundum nefndarinnar hafi verið rætt nokkuð um þetta varðandi gjaldtökuna. Auðvitað má sjá að horft hefur verið á þetta, hvort þetta sé mögulega úr hófi, þ.e. þessi heimild sem þjóðskrá er veitt þarna, sér í lagi þar sem við höfum nýlega samþykkt og innleitt Evrópureglugerð um endurnot opinberra upplýsinga. Þar var líka fjallað töluvert, man ég, í þeirri nefnd sem fjallaði um þá reglugerð, um það að öll gjaldtaka fyrir endurnot opinberra upplýsinga verði að vera mjög takmörkuð, ekki megi leggja gjöld á nema það sé algjörlega á hreinu að ekki sé um viðbótarkostnað að ræða fyrir neytandann.

Það virðist vera sem nefndin hafi að einhverju leyti verið meðvituð um þessa skörun, þ.e. skörunina á þessu frumvarpi annars vegar og svo umræddri Evróputilskipun um endurnot opinberra upplýsinga. En ég get samt ekki alveg séð að fjallað hafi verið um það á þann veg að þeim vangaveltum hafi verið lokað með öllu. Vissulega hefur Þjóðskrá Íslands í dag heimild til gjaldtöku, en maður veltir samt fyrir sér hvort þarna sé verið að veita stofnuninni rýmri heimild en áður hefur verið. Ég hef að minnsta kosti nokkrar áhyggjur af þessu tiltekna ákvæði einmitt vegna þess sem ég kom áður inn á, þ.e. að umrætt lagaákvæði virðist ganga ansi langt og vera ansi opið. Það er ekki tekið fram með nógu afgerandi hætti að um sé að ræða tæmandi upptalningu í 1. mgr. 5. gr. Það eru vissulega fordæmi fyrir því að leggja gjald á ýmsa þjónustu. Það hefur þótt tilhlýðilegt. Engu að síður þarf það að vera algjörlega skýrt að um sé að ræða beinan kostnað við þá þjónustu.

Þjóðskrá Íslands gegnir margvíslegu hlutverki eins og fram kemur í frumvarpinu. Í 3. gr. frumvarpsins er talið upp að stofnunin sjái um þjóðskrána og tengdar skrár og annist rekstur gagna- og upplýsingakerfa. Þá veltir maður fyrir sér hvernig stofnunin fari að því að skilgreina nákvæmlega, án þess að verið sé að leggja viðbótarskatt á almenning, hvaða kostnaður hlýst eingöngu af þeirri þjónustu sem einstaklingurinn sem hefur samband við þjóðskrá, hvort sem hann mætir á staðinn eða rafrænt, er að óska eftir. Hann er að óska eftir einhverjum upplýsingum, óska eftir skráningu nýrrar fasteignar í fasteignaskrá, óska eftir að fá upplýsingar úr fasteignaskrá eða tengdum skrám úr þjóðskrá og slíkt. Hvernig er hægt að tryggja að stofnunin fari ekki út fyrir þær lagaheimildir sem hún hefur við innheimtu þjónustugjalda?

Það verður að segjast eins og er að þegar horft er á þetta tiltekna ákvæði 5. gr. frumvarpsins virðist sem þetta sé ekki alveg tryggt, að hætta sé á að stofnunin tryggi rekstur sinn frekar, styrki stoðir sínar, með því að auka við gjaldtöku og bæta við þá gjaldskrá sem hún leggur fram.

Maður sér líka að stofnunin hefur heimild til að rukka aukalega sé óskað eftir þjónustu utan hefðbundins skrifstofutíma og þannig skuli greiða fyrir vinnu starfsmanns við þjónustu með álagi í samræmi við gjaldskrár Þjóðskrár Íslands.

Einnig er veitt heimild til stofnunarinnar til að mæla fyrir um afslátt af gjaldtöku og niðurfellingu gjalds jafnvel í sérstökum tilvikum, t.d. til námsmanna og vegna rannsóknarverkefna. Þá veltir maður fyrir sér, þegar búið er að reikna það út með svo ígrunduðum hætti hver kostnaðurinn er af hverju einasta verkefni, hver kostnaðurinn er við að veita svör við rafrænum fyrirspurnum úr þinglýsingarhluta fasteignaskrár, svo að dæmi sé tekið, eða veita upplýsingar úr þjóðskrá án þess að prenta út vottorð hverju sinni eða án þess að nokkurt skjal sé afhent. Hvernig fer þá með þann kostnað ef einhver er? Verður honum deilt niður á aðra sem eru að afla upplýsinga en fá ekki notið viðlíka afsláttar?

Þetta eru allt vangaveltur sem kvikna hjá mér. En ég get ekki séð að þessum spurningum sé svarað hér. Það er auðvitað talað um það í nefndarálitinu að nefndin telji að tryggja mætti með skýrum hætti samræmi í forsendum gjaldskráa hins opinbera með það að leiðarljósi að gjöldum fyrir þjónustu sem hinu opinbera er skylt að veita og varðar réttindi borgaranna sé stillt í hóf. Við hljótum öll að geta verið sammála um að það skipti máli að öllum slíkum gjöldum sé stillt í hóf og við reynum að okra ekki á borgurunum, að við látum ekki stofnanir hins opinbera okra á borgurunum, nóg er nú samt í dýrtíðinni. Ég get ekki séð að þetta frumvarp tryggi með fullnægjandi hætti að svo sé ekki. Ég verð því að lýsa yfir dálitlum áhyggjum af umræddu ákvæði 5. gr. þessa frumvarps.