148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:49]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra þessa sérstöku áherslu hv. þingmanns á 5. gr. vegna þess að fyrir mér virkar hún á mig eins og hún hafi verið skrifuð fyrir 50 árum frekar en árið 2018. Mikið af þeim heimildum sem er verið að veita til þess að innheimta þjónustugjöld byggist á því að fólk borgi fyrir að fletta upp hlutum sem eru í dag í rafrænum skrám í gagnagrunnum. Meira að segja á einum stað í i-lið er bókstaflega talað um rafrænar fyrirspurnir, í f-lið er talað um uppflettingar.

Nú er það þannig að þegar maður er með rafræna skrá er ákveðinn grunnkostnaður við að hafa kveikt á tölvunni sem gagnagrunnurinn liggur í og sá kostnaður er afskaplega lítill í raun. En kostnaður við uppflettingu er í sjálfu sér enginn. Má segja að jaðarkostnaðurinn við uppflettingu sé núll.

Þess vegna velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður geti hjálpað mér að skilja hvernig það er varðandi almennar reglur í opinberri stjórnsýslu að rukka fyrir eitthvað sem kostar raunverulega ekkert að veita. Er það heimilt? Er það ekki bara frekar ósiðlegt að gera þetta? Mætti jafnvel leggja til að fella ætti niður öll þjónustugjöld fyrir rafrænar uppflettingar af því tagi þegar jaðarkostnaðurinn er enginn?