148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[18:52]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir spurninguna. Þetta er auðvitað það sem ég vildi ræða hér, einmitt um beinan kostnað. Hver er sá beini kostnaður sem hlýst af því að hafa upplýsingar á einhverri síðu þegar segja mætti að sá sem sækir upplýsingarnar beri einhvern kostnað við það að kveikja á tölvunni og brúka rafmagnið? Auðvitað kostar alltaf eitthvað að halda úti vefsíðum, það er einhver kostnaður við það og hafa upplýsingar þar. Rafmagn kostar.

En á móti kemur að stofnunin er líka með ákveðnar lögbundnar skyldur. Af því hlýst kostnaður per se. Hvernig ætlar stofnunin að fara að því að skilgreina nákvæmlega hvaða kostnaður hlaust af því að einstaklingurinn fór inn og sótti upplýsingar sem búið var að setja inn á síðuna? Ef búið er að útbúa gagnabankann, gagnagrunninn, þá hlýtur kostnaðurinn að vera misjafn eftir því hvort upplýsingar eru sóttar þangað inn þúsund sinnum eða milljón sinnum, þá verður kostnaðurinn við það að útbúa gagnabankann auðvitað ekki sá sami.