148. löggjafarþing — 68. fundur,  5. júní 2018.

Þjóðskrá Íslands.

339. mál
[22:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta með þjónustugjöldin sem við verðum að velta vel og ítarlega fyrir okkur. Það að fjármagna starfsemi með þjónustugjöldum er ekki heimilt. Maður getur fjármagnað ákveðið verkefni, ákveðna þjónustu með þjónustugjöldum — enda eru þetta þjónustugjöld — en ekki tvírukkað sama fólkið fyrir rekstur stofnunar. Við rekum auðvitað stofnun eins og Þjóðskrá Íslands með skattpeningum okkar þannig að þá fær maður ekki séð að það sé nokkur einasta heimild til þessa ef skráin er á annað borð til og það er lögbundið hlutverk stofnunar að halda utan um skrána, að afla upplýsinga og hafa þær tiltækar, t.d. fyrir stjórnvöld. Vilji almenningur fá einhverjar upplýsingar úr þessari skrá eða þessum gagnagrunni sem er til, en þarf vissulega að viðhalda með einhverjum hætti, ætti hann að fá það. Ég fæ ekki séð að það megi tvírukka fyrir það.

Hv. þm. Smári McCarthy talaði um að þetta hefði verið í umræðunni fyrir ári. Í sambandi við hvaða mál var það? Getur þingmaðurinn sagt okkur frá því?