148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í grein sem birtist í Kjarnanum í gær kom fram að Íbúðalánasjóður hefur lánað rúmlega 18 milljarða kr. til 25 félaga sem ýmist eru rekin í hagnaðarskyni eða stendur til að breyta yfir í slíkt form. Þetta var þó gert á grundvelli reglugerðar sem heimilar bara lán til aðila sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Þessi misnotkun á slíku fyrirkomulagi skapar ástand sem jafngildir ríkisstyrkjum til fyrirtækja á formi sem bannað er samkvæmt EES-samningnum. Samkvæmt IV. kafla leiðbeininga Eftirlitsstofnunar EFTA um endurheimt ólögmæts ávinnings ríkisaðstoðar kemur fram að ESA hefur fyrirskipað aðildarríkjum að endurheimta allan ólögmætan ávinning af ríkisaðstoð sem samræmist ekki ákvæði EES-samningsins. Það verður forvitnilegt að sjá hvað Samkeppniseftirlitið hyggst gera í því þar sem Heimavellir, sem hafa fengið nær helming allra þessara lána, hyggjast núna fara í hlutafjáruppboð og hyggja á arðgreiðslur.

Það vekur jafnframt furðu að málefni Íbúðalánasjóðs hér á þinginu falla fyrst og fremst undir athugun velferðarnefndar frekar en efnahags- og viðskiptanefndar í ljósi þess að Íbúðalánasjóður er og hefur í raun alltaf verið fyrst og fremst fjármálastofnun. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð segir um rekstur sjóðsins, með leyfi forseta:

„Starfsemi Íbúðalánasjóðs víkkaði út fyrir lánveitingar til húsnæðiskaupa og undir formerkjum áhættustýringar var hann rekinn sem fjárfestingarbanki, fjármagnaður með útgáfu ríkistryggðra skuldabréfa. Sjóðurinn fjárfesti í skuldabréfum og veðlánasöfnum og gerði lánasamninga við aðrar fjármálastofnanir. Til hans voru ekki gerðar sömu kröfur um eigið fé, laust fé eða menntun og reynslu stjórnarmanna og til annarra fjármálastofnana. Hann laut ekki heldur sama eftirliti og þær.“

Hér er um að ræða aðra vafasama útvíkkun. Það er ekki búið að taka á þessum athugasemdum eða öðrum með fullnægjandi hætti. Íbúðalánasjóður er kominn á mjög hálan ís eða er þá að láta blekkja sig verulega.

Ég legg til að það verði gert að sérstöku áherslumáli á þinginu í haust að taka starfsemi sjóðsins til athugunar með það fyrir augum að tryggja hagsmuni (Forseti hringir.) borgaranna, eðlilega starfsemi sjóðsins og að markmiðum um fullnægjandi húsnæði fyrir alla verði fullnægt.