148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Það er full ástæða til þess að þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir fyrirspurn hér í gær til samgönguráðherra um stöðu veglagningar í Gufudalssveit. Ekki voru svör hæstv. samgönguráðherra neitt sérstaklega uppörvandi. Í máli hans kemur fram að áfram mun þetta mál þurfa að velkjast um í stjórnsýslunni næstu misserin ef svo má segja. Mögulega einhvern tímann á árinu 2019, um sumarið eða haustið, má sjá fram á að vegaframkvæmdir geti hafist. Þetta er með hreinum ólíkindum, mál sem velkst hefur um í stjórnsýslunni í 20 ár mun áfram þurfa að gera það.

Ég ætla að nefna þetta hér í störfum þingsins af því að útbýtt hefur verið á þessu þingi frumvarpi nokkurra þingmanna úr Norðvesturkjördæmi, hv. þingmanna Haraldar Benediktssonar, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, Guðjóns S. Brjánssonar, Bergþórs Ólasonar og Sigurðar Páls Jónssonar. Það eru vissulega vonbrigði, nú þegar mögulega sér fyrir endann á þingstörfum þessa dagana, að það mál hafi ekki verið tekið til umræðu, hafi ekki fengið umfjöllun og hafi ekki verið rætt í þessum sal. Almannahagsmunirnir sem eru undir eru gríðarlegir. Þeir draga það fram að stjórnsýslan hefur í 20 ár brugðist fullkomlega í þessu máli.

Það eru viss vonbrigði ef Alþingi ætlar að fylgja í sömu átt og stjórnsýslan hefur gert. En ég hef þá trú að hægt sé að taka þetta mál fyrir strax á nýju þingi.