148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu. Ekkert þykir okkur vænna um en börnin okkar og barnabörn og velferð þeirra, að þau dafni og búi við gott atlæti alla tíð. Stundum tekur lífið þó stefnu sem enginn sér fyrir og enginn óskar sér, atvik eða aðstæður koma upp þar sem foreldrar og fjölskyldur missa stjórn á eigin aðstæðum, aðstæðum sem þau vilja öllu fremur losna úr og hafa ekki meðvitað kosið sér, þurfa aðstoð og liðveislu til að átta sig á eðli vandans og leiðum til úrlausna.

Hluti vandans getur verið andlegir erfiðleikar, sjúkleiki og vanhæfi af siðferðilegum toga sem hindra eðlilegar uppeldisaðstæður barna. Því er afar brýnt að börnin eigi sér örugga málsvara, skjól og bakhjarla í samfélaginu á öllum stigum og við teljum okkur trú um að svo sé þótt okkur þyki ýmislegt á skorta.

Grunnþjónusta í barnaverndarmálum fer fram hjá pólitískt skipuðum barnaverndarnefndum sveitarfélaga sem eru með ýmisleg stuðningsúrræði að auki í boði eftir atvikum.

Þær aðstæður skapast, því miður, að foreldrar þurfi að leita ásjár sýslumanns í erfiðum málum, t.d. til að setja niður ágreining um umgengni við sameiginleg börn sín. Þeir sem lenda í slíkum aðstæðum kvarta mjög undan óhóflega löngum afgreiðslutíma slíkra mála. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er ekki hægt að stytta þennan tíma og hvernig sér hann fyrir sér að það megi verða?

Virðulegur forseti. Barnavernd er einstaklega viðkvæmur og krefjandi málaflokkur og það er aldrei nógsamlega tíundað að gætt sé varúðar og tillitssemi í umræðu um þau á opinberum vettvangi. Vönduð vinnubrögð, traust og fagmennska eru lykilatriði og þurfa skilyrðislaust að vera yfir allan vafa hafin. Í litlum sveitarfélögum þar sem persónuleg nálægð er mikil getur hlutlæg málsmeðferð hins vegar verið erfið. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort hann telji að ástæða sé til að skoða starfsumhverfi barnaverndarnefnda með stækkun og faglega eflingu og samræmingu að leiðarljósi, t.d. á kjördæmavísu. Gæti það orðið barnaverndarmálum til framdráttar?