148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:15]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og hæstv. ráðherra fyrir þessa umfjöllun hér í dag. Barnaverndarmál eru auðvitað þau mál sem við verðum að vanda hvað mest til verka enda vandasöm mál þar sem persónur eiga oft erfiðara með að verja sig og átta sig á aðstæðum þar sem aðstæðurnar eru oft bæði erfiðar og ekki síst flóknar.

Ég er afskaplega ánægð með forystu ríkisstjórnarinnar og áherslur í stjórnarsáttmálanum þar sem lögð er sérstök áhersla á að styrkja stöðu þeirra sem höllum fæti standa og sér í lagi stöðu barna sem búa við fátækt. Ávallt þarf að setja börn í forgrunn þegar kerfið er skoðað í heild sinni og skapa samfélag þar sem réttindum þeirra er haldið á lofti. Við þurfum að tryggja þeim fyrst og fremst jöfn tækifæri og þar sem börn standa verr þarf alveg sérstaklega að koma til móts við þau. Á sama tíma, þegar persónuleg, viðkvæm mál þeirra eru til umfjöllunar, þarf að gæta að persónuvernd þeirra í hvívetna. Við eigum að gera enn meiri kröfur til þess um málefni barna.

Upplýsingaöryggisvottunin er ánægjulegt skref og mikilvægt enda lykilþáttur í að vernda persónuupplýsingar. Þess er einnig sérstaklega gætt í nýrri persónuverndarlöggjöf og vegna hennar verður allt verklag í kringum þessi mál, líkt og önnur auðvitað, sérstaklega skoðað í ráðuneytunum eða endurskoðað. Við getum vonandi stolt í næstu viku afgreitt nýju persónuverndarlögin sem munu enn frekar tryggja vernd viðkvæmra persónuupplýsinga.

Félagskerfið okkar verður ávallt að hafa börn í forgangi og ég gleðst yfir því að ráðast eigi í almenna endurskoðun á kerfinu gagnvart börnum þar sem markmiðið er að setja börn í forystu í allri nálgun ásamt því að tryggja góða þjónustu. Með þeirri endurskoðun getum við vonandi bæði nýtt fjármagnið betur fyrir börnin, gert kerfið samræmdara, enda skortir (Forseti hringir.) kannski örlítið á heildarsýn. Ég hlakka til að heyra frá fleiri ræðumönnum og ráðherra nánar um það.