148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

barnaverndarmál.

[15:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka þá góðu umræðu sem hefur átt sér stað og fagna þeim ágæta framgangi sumra þessara mála sem virðast þokast í rétta átt af orðum hæstv. ráðherra að dæma. Ég hlýt þó að lýsa vonbrigðum mínum með það að hv. þm. Ásmundur Friðriksson sói svo mikilvægri umræðu í persónulegt skítkast gagnvart þingmönnum og brigslyrði, ef svo mætti að orði komast. Mér þykir umræðan eiga betra skilið. (Gripið fram í.)

Ég þakka fyrir góða umræðu en verð í lok hennar … (Gripið fram í.) — ég hef orðið, hv. þingmaður. Það er mitt, ekki satt, forseti?

Ég verð þó í lok umræðunnar að ræða mál sem út af stendur en það eru starfshættir fyrrverandi forstöðumanns Barnaverndarstofu, núverandi starfsmanns félags- og jafnréttismálaráðherra, Braga Guðbrandssonar. Nú veit ég vel að svonefndri óháðri úttekt sérfræðinga hafi verið ætlað að greina þetta atriði ásamt öðrum, en hún átti að skila skýrslu sinni í gær og þingi er að ljúka. Ég tel mikilvægt að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra gagnvart því máli áður en þingi lýkur.

Ég ætla ekki að fjalla um þetta einstaka barnaverndarmál en hins vegar finnst mér mikilvægt að hæstv. ráðherra svari eftirfarandi spurningu sem lýtur almennt að réttindum barna og stjórnsýslu barnaverndarmála: Telur hæstv. ráðherra að hegðun forstjóra Barnaverndarstofu, þar sem hann hafði afskipti af einstaka barnaverndarmáli án þess að huga að því hvort málsaðili kunni að hafa brotið kynferðislega gegn barninu sem átti í hlut, samræmist barnalögum, barnaverndarlögum og barnaréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna?

Þetta eru mikilvægar spurningar og þær varða ekki aðeins þetta einstaka mál heldur barnaverndarmál almennt og afstöðu ráðherra sem fer með barnaverndarmál í ríkisstjórn Íslands til mannréttinda barna og þeirrar grundvallarkröfu að börn séu alltaf látin njóta vafans.