148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

tollalög.

518. mál
[20:55]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en þetta er mál sem ég myndi gjarnan vilja ræða nánar í framtíðinni. Í grundvallaratriðum, án þess að vilja einfalda þetta of mikið, eru allar viðskiptahindranir milli landa til þess gerðar að auka á fátækt í sumum löndum í þágu annarra. Þá er ég ekki bara að tala um vöruflutninga og vöruviðskipti heldur einnig takmarkanir á flutningi á vinnuafli sem, þegar það er sett saman við flutning á fjármagni, býr til möguleikann á ákveðnum fátæktarpollum í heiminum. Peningarnir geta farið þangað sem vinnuafl er ódýrast en vinnuaflið kemst ekki þangað sem það er mest metið.

Í augnablikinu í heiminum, á jörðinni, er lítill skilningur á þessu og það er til mjög varlegt mat sem segir að við séum í það minnsta að skilja eftir trilljón dollara á ári í heimsframleiðslu á því einu að vera með svona stíf skilyrði fyrir flutning á vinnuafli. Þetta er nokkuð sem ég held að við getum bætt en við gerum það ekki með þessu frumvarpi. Það sem gerum með þessu frumvarpi er að stíga lítið en mikilvægt skref í rétta átt með því að minnka viðskiptaþvinganir. Þetta eru þvinganir gegn ansi mörgum löndum og það er mjög gott. Auðvitað eigum við að stíga miklu fleiri skref eins og margir hafa talað um hér út af þessu máli. Ég hlakka til að takast á við það með ykkur, með öllum hér á þingi, en í millitíðinni skulum við hugsa svolítið um hvaða tækifærum við erum að missa af vegna þessarar þröngsýni sem verður fyrst og fremst til með þjóðernishyggju.