148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um hugverkaréttindi. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 22. mars 2018. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Tilskipun 2014/26/ESB er ætlað að samræma starfshætti rétthafasamtaka með því að setja þeim samræmdar reglur um starfsramma er varðar stjórnskipulag, skipan fjármála, gegnsæi og upplýsingagjöf. Reglunum er ætlað að tryggja þátttöku rétthafa í ákvörðunarferli rétthafasamtaka og upplýsingaflæði til rétthafa, rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og almennings. Reglurnar eiga auk þess að tryggja að rétt sé staðið að umsýslu tekna sem rétthafasamtök innheimta fyrir hönd rétthafa. Réttindi rétthafa skulu þannig vera tilgreind í samþykktum viðkomandi samtaka, auk þess sem rétthafar geta valið sér rétthafasamtök án tillits til ríkisborgararéttar og búsetu. Óheimilt er að neita rétthöfum um aðild að rétthafasamtökum og rétthafar munu sjálfir geta veitt leyfi fyrir notkun sem ekki er í hagnaðarskyni. Þá er það jafnframt markmið tilskipunarinnar að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af rétthafasamtökum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu og tilgreinir tilskipunin í því skyni þær kröfur sem rétthafasamtök, sem munu geta veitt slík leyfi, þurfa að uppfylla.

Við meðferð málsins hjá nefndinni kom fram að sú aðlögun sem allsherjar- og menntamálanefnd og utanríkismálanefnd kölluðu eftir hefði ekki fengist samþykkt af hálfu Evrópusambandsins. Sú aðlögun varðaði tiltekna þætti tilskipunarinnar sem nefndirnar töldu að gætu reynst íslenskum samtökum á þessu sviði íþyngjandi. Íslensk stjórnvöld óskuðu þess í stað eftir tímabundinni aðlögun frá tilskipuninni með þeim hætti að frestað yrði gildistöku íþyngjandi ákvæða hennar um skýrslugerð rétthafasamtaka, þannig að miðað yrði við fjárhagsárið 2019 í stað 2018 í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í ljósi þess hve umræða um upptöku tilskipunarinnar dróst á langinn var aftur á móti ekki lengur þörf á slíkri aðlögun þar sem umræddar kröfur um skýrslugerð rétthafasamtaka munu ekki gilda fyrr en fjárhagsárið 2019. Fram kom í kynningu fulltrúa utanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis að íslensk rétthafasamtök væru vel undirbúin undir þær breytingar sem felast í tilskipuninni.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi. Gert er ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra muni leggja fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga sem kveði á um samræmdar reglur um stjórnarhætti, gagnsæi starfsreglna og fjármálaskipulag samtaka höfundaréttar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Inga Sæland sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Smári McCarthy, Ari Trausti Guðmundsson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Logi Einarsson.

Það er kannski allt í lagi að koma inn á að það er nokkuð gott að þetta mál er að komast í gegn, þ.e. ná þessu stigi, vegna þess að nú eru þær netþjónustur sem veita höfundaréttarvarið efni í notkun hjá 64% fólks í Evrópu og töluvert hærra hlutfall væntanlega á Íslandi án þess að ég hafi séð tölur um það. Þá erum við að tala t.d. um streymisveitur eins og Spotify og Netflix. Helmingur fólks á aldrinum 18–35 ára samkvæmt könnun sem var gerð, að mig minnir, af Eurostat leit svo á að þau réttindi að geta farið milli landa og notið sömu þjónustu óhindrað hvar sem er í Evrópu væru mjög mikilvæg. Það skýrist svolítið af því að fólk ferðast mun meira en áður og fólk er rosalega hissa þegar það kemur til annars lands og allt í einu virka þjónusturnar ekki lengur. Um leið eru mjög margir sem héldu að þetta væri sjálfsagt og eiginlega bara innbyggt í hlutarins eðli. Þetta hefur verið háð ýmsum samningum í gegnum tíðina sem hafa flækt málin töluvert. Þetta gerir því ýmislegt, þessi tiltekna tilskipun sem vonandi verður útfærð sem allra fyrst í lögum, en gagnvart hinum almenna neytanda er þetta svo góð réttarbót, bæði vegna þess að hafa þá fyrirsjáanleika þegar ferðast er um alla Evrópu og líka vegna þess að þetta eykur líkurnar á því að meira gæðaefni verði aðgengilegt á Íslandi. Gagnvart rétthöfum þýðir þetta líka ákveðinn réttindaauka sem gerir það að verkum að fólk getur farið hvert sem er til rétthafasamtaka og sé í rauninni ekki bundið af þjónustu ákveðinna rétthafasamtaka eins og áður og vonandi líka að bókhaldið við greiðslu svokallaðra stefgjalda eins og það hefur oft verið kallað til réttra rétthafa verði með betri hætti í framtíðinni. Því hefur oft verið mjög ábótavant.

Einhverjum gæti þótt skrýtið að Pírati standi í ræðustól Alþingis og sé hlynntur þessu máli af því að þetta snýr að höfundarétti, en það er kannski ágætisástæða til að minna á að Píratar eru ekki og hafa aldrei verið andsnúnir höfundarétti sem slíkum. Við viljum bara nútímavæða þann rétt í samræmi við þann nútíma sem við búum við. Nú man ég það ekki alveg nákvæmlega en 2. gr. stefnu Pírata í höfundaréttarmálum snýr einmitt að því hvernig við aukum á nútímavæðingu þess réttar. Ég er ekki frá því að það að taka upp þessa ágætistilskipun frá Evrópusambandinu uppfylli ansi margt í þeirri stefnu. Að sjálfsögðu tala ég því vel og lengi fyrir þessu en ætla að láta hér staðar numið.