148. löggjafarþing — 69. fundur,  6. júní 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

612. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka er varðar almennu persónuverndarreglugerðina.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhönnu Bryndísi Bjarnadóttur og Álfrúnu Perlu Baldursdóttur frá utanríkisráðuneytinu, Rósu Dögg Flosadóttir frá dómsmálaráðuneytinu og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að samþykkja fyrirhugaða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, en í almennu persónuverndarreglugerðinni er mælt fyrir um reglur um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um reglur er varða frjálsa miðlun upplýsinga.

Reglugerðin varðar grundvallarréttindi og frelsi einstaklinga, einkum rétt þeirra til verndar persónuupplýsingum. Almenna persónuverndarreglugerðin kom til framkvæmda innan Evrópusambandsins hinn 25. maí sl. Reglugerðin tekur ekki til EFTA-ríkjanna innan EES eins og Íslands fyrr en hún hefur verið tekin formlega upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og sú ákvörðun tekið gildi.

Tillagan er lögð fram á Alþingi áður en sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt umrædda ákvörðun. Hinn 16. mars 2018 sendu EFTA-ríkin með formlegum hætti til Evrópusambandsins drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Að jafnaði tekur það ESB þrjá til fimm mánuði að ljúka málsmeðferð til að fá umboð til að samþykkja ákvörðun í slíkum málum áður en mál kemur til meðferðar í sameiginlegu EES-nefndinni. Á meðan sú málsmeðferð stendur yfir afla EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Liechtenstein og Noregur, umboðs frá þjóðþingum landanna til að samþykkja umrædda ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni.

Ástæða þess að í tillögunni er leitað eftir fyrirframheimild Alþingis til að staðfesta ákvörðunina án stjórnskipulegs fyrirvara er sú að afar brýnt er að ákvörðun um upptöku almennu persónuverndarreglugerðarinnar í EES-samninginn öðlist gildi sem fyrst eftir að hún er tekin til þess að lágmarka röskun á flæði persónuupplýsinga milli Íslands og Evrópusambandsins. Innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins kallar á lagabreytingar hér á landi og dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Er það til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir það ritar sú sem hér stendur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og að auki hv. þingmenn Ásgerður K. Gylfadóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Logi Einarsson, Smári McCarthy og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.