148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

menntun fatlaðs fólks.

[10:32]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Oft er það svo, því miður, að fatlaðir einstaklingar geta ekki tekið þátt í samfélaginu til jafns við aðra og sæta oft mikilli mismunun. Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýrt kveðið á um rétt þessa fólks til menntunar.

Fjölmennt er sjálfseignarstofnun sem sinnir námskeiðahaldi og veitir námsráðgjöf fyrir þennan hóp og á að tryggja samkvæmt samkomulagi við menntakerfið að hann geti stundað símenntun til jafns við aðra þegna samfélagsins.

Nú hefur framlag ríkisins til stofnunarinnar ekki hækkað síðan árið 2009 sem þýðir niðurskurð um heil 30% og sér Fjölmennt nú fram á að þurfa að minnka þjónustu sína verulega, stytta námskeið og fækka menntunartilboðum fatlaðra. Ekkert annað hefur komið í staðinn.

Á meðan námsmenn almennt hlakka til og fagna stúdentsprófi sínu kvíða þessir einstaklingar of fyrir, þeir vilja jafnvel ekki útskrifast þar sem ekkert annað tekur við.

Herra forseti. Mannréttindi eru mikilvæg. Það verður að sýna þau í reynd en ekki bara á tyllidögum.

Því vil ég spyrja ráðherra hvort það sé eðlilegt að í góðæri, eins og menn tala fjálglega um núna, eigi þessi hópur ekki að njóta þess til jafns við aðra. Hvort ekki eigi að standa við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að byggja upp menntun eða aðra möguleika fyrir það. Telur ráðherra ekki samfélaginu til góða að þessi hópur geti menntað sig til jafns við annað ungt fólk í þessu landi?

Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að tryggja að nægt fjármagn renni til þessarar stofnunar og annarra menntastofnana til að hægt sé að sinna þessari mikilvægu og uppbyggilegu þjónustu áfram?