148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

menntun fatlaðs fólks.

[10:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Nú er það svo að framlög til Fjölmenntar hafa verið að breytast í gegnum tíðina og Fjölmennt lendir í talsverðum niðurskurði á árunum 2009 til 2013/2014, en síðustu sex árin hefur átt sér stað aukning um 15,4%. Við höfum verið að auka þetta örugglega.

Fjölmennt gegnir mjög mikilvægu hlutverki í því að ráðleggja hvernig eigi best að standa að menntun og símenntun fyrir fatlað fólk. Það er svo sannarlega á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Sú sem hér stendur vann að því að samþykkja skuldbindingar Íslands er varða fatlað fólk, samning Sameinuðu þjóðanna, þannig að mér er málið mjög hugleikið.

Við höfum aukið fjárframlög, eins og þingmaðurinn ætti að vita, á síðustu sex árum um 15,4% og munum halda áfram að gera vel í málaflokknum.