148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar verðtryggingu eins og við þekkjum hana var komið á hér á landi árið 1979 var verðbólga gríðarlega mikil og erfitt að afla lánsfjár. Húsnæðiskerfið leið fyrir þetta og eignir lífeyrissjóða rýrnuðu hröðum skrefum. Ég vil minna á þetta til að halda því til haga að ákvörðunin um að koma verðtryggingunni á fól í sér viðbrögð við mikilli verðbólgu og óstöðugleika í fjármálum. Þannig var verðtryggingin afleiðing en ekki orsök. Það er meginatriði þegar um hana er rætt að minnast þess hvernig orsakasamhenginu er háttað og því aðeins hefur verðtrygging lánsfjár orðið svo langlíf hér sem raun er og runnið fjármálakerfinu í merg og bein að verðbólga og víxlhækkanir hafa lengstum einkennt íslenskt efnahagslíf.

Það er auðvitað ekkert keppikefli í sjálfu sér að viðhalda verðtryggingu. Hún er einungis tæki til að fást við tiltekin efnahagsleg vandamál og væri óþörf ef þau væru ekki til og kölluðu á úrlausn. Verðtryggingin skapar ákveðnar forsendur fyrir báða aðila lánasamnings þar sem í aðferðinni felst að verðmæti endurgreiðslna lánsfjárins er fastsett. Þarna eru markaðar mikilvægar grunnforsendur fyrir báða aðila sem stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu. Því megum við ekki gleyma þegar gagnrýni er beint að verðtryggingunni sem forsendu fyrir lánasamningum.

Ríkisstjórnin hefur áform um að afnema verðtryggingu, a.m.k. í þeim mæli sem henni hefur verið beitt hérlendis. Hið góða við það er að þá mun ríkisstjórnin líka hafa áform um að eyða þeim ástæðum sem urðu til þess að verðtryggingin var tekin upp á sínum tíma. Við megum ekki gleyma því að um skeið hefur lántakendum staðið til boða að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána, sem bera þá hærri vexti. Margir velja verðtrygginguna og lægri vexti og er það vel skiljanlegt með tilliti til hins háa vaxtastigs hér, sem mikilvægt er að lækka niður á skikkanlegra stig.

Í því sambandi vil ég benda á að hv. málshefjandi bendir á það í síðustu spurningu sinni að húsnæðisliður vísitölunnar hafi hækkað. Hann kennir stefnu sveitarfélaga í skipulags- og lóðamálum um það en lítur fram hjá áhrifum hinna háu vaxta hvað það snertir. Þar tel ég að hv. málshefjandi hafi gerst nokkuð glámskyggn.

Ég ítreka að verðtryggingin er (Forseti hringir.) fyrst og fremst afleiðing en ekki orsök og hún verður því fljótast og öruggast tekin af með því að skapa stöðugleika með lágri verðbólgu og jafnvægi í eftirspurn eftir (Forseti hringir.) lánsfé. Það er meginverkefnið sem ber að sinna og sannarlega ánægjulegt (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin hafi sett það á verkefnalista sinn í stjórnarsáttmála.