148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fylgiritið sýnir ekki hvort við erum að ná settum markmiðum. Það sýnir bara upphæðirnar og við vitum ekkert hvaða stefnu eða hvaða markmiðum við erum að ná með þeim upphæðum nema þær séu birtar með einmitt mælanlegum, nothæfum mælieiningum.

Er þetta til bóta? Já, ég tel það tvímælalaust, það er komið inn í þennan stefnumótunarhugsunargang. En mannleg hegðun er stundum dálítið fyrir. Það er það sem ég benti á í áliti mínu, að þó að við séum komin með ný lög þýðir það ekki endilega að við förum að haga okkur einhvern veginn öðruvísi. Ég skynja það að enn sé verið að fara eins með t.d. þennan fjárauka og varasjóðina þá í staðinn. Það er einhvern veginn hægt að nota þá og Alþingi kvittar upp á: Já, ókei, þetta er allt í lagi, þó að það sé ekki í lagi samkvæmt lögunum. Þá bara: Ég tel að þetta uppfylli skilyrðin, þó að það sé í raun og veru mjög augljóst fyrir hvern sem vill skoða það vel að það uppfyllir ekki skilyrðin.

Ég tel síðan með ársskýrslurnar að þær verði ekki gagnlegar. Af því að markmiðin og stefna voru ekki skýr, það er í raun ekki hægt að útskýra hvernig tókst til og það hjálpar ekki neitt. Það sem er þó gott í þessari fjármálaáætlun og verður líklega gott í skýrslunum líka er að aðstæðurnar og staðan verður útskýrð, hverjar eru helstu áskoranir o.s.frv. En við getum ekki alltaf lifað í því að fá fram á hverju ári hvernig staðan er, heldur viljum við fá að vita miðað við hvernig staðan er núna hvaða árangri við ætlum að ná til framtíðar út frá þeirri stöðu, hvað það kostar, af hverju það kostar svo mikið til að geta sagt á næsta ári: Þetta var auðveldara eða erfiðara en þetta gekk eins og ætlunin var.

Þannig er stefnumótunin, (Forseti hringir.) hún segir út frá núverandi stöðu hvað við ætlum að gera til að laga núverandi stöðu en ekki bara segja á hverju ári hvernig staðan er.