148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hélt hér mikla eldræðu. Það er ágætt, gaman að hlusta. Honum varð tíðrætt um skattkerfi. Í því nefndaráliti sem hv. þingmaður hefur lagt fram við fyrirliggjandi fjármálaáætlun er dregið fram að Samfylkingin vilji að tekjuskattur sé þrepaskiptur, gegni því tvíþætta hlutverki að vera tekjustofn fyrir ríkissjóð og stuðla síðan að tekjujöfnun. Með leyfi hæstv. forseta, segir orðrétt:

„Þá hefur Samfylkingin viljað endurskoða bilin milli skattþrepa, fjölga skattþrepunum og tryggja sanngjarnt framlag tekjuhærri hópa og stóreignafólks til samfélagsins í gegnum skattkerfið.“

Allt er þetta gott og blessað. En svona leggja menn ekki fram öðruvísi en að vera með nokkuð nákvæma mynd og nokkuð nákvæma hugmynd að því hvað þeir ætla að gera og hvernig þeir ætla að hafa skattkerfið, þannig að ég óska eftir því að hv. þingmaður upplýsi það hversu há hæsta skattprósentan eigi að vera, við hvaða tekjumörk eigi að miða og hversu mörg hv. þingmaður ætlar að skattþrepin eigi að vera. Með öðrum orðum: Hversu flókið á skattkerfið að vera, hver á lægsta skattprósentan að vera og hvenær telur hv. þingmaður að eðlilegt sé að miðað sé við að menn byrji að greiða skatt, af hvaða launum? Hver eru mörkin?