148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[14:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vert að minna á að forsvarsmenn Landspítalans hafa ekki talað niður þær tillögur sem hér liggja fyrir. Ég minni aftur á það sem sagt var þegar þeir komu á fundinn: Þetta var tilraun til að meta markmið ríkisfjármálaáætlunar, þessir 87 milljarðar. Ef þingmanninum er svona annt um að bæta og breyta, þrátt fyrir að hann tali um þetta lágmark, af hverju ekki að ganga alla leið? Hvar á að stoppa? Af hverju á að stoppa við lágmarkið? Er það nóg til að hv. þingmaður telji það stórsókn, innviðainnspýtingu, eða hvað?

Samfylkingin leggur til 1 milljarð í vegagerð. Samt tiltekur hún sérstaklega að í ríkisfjármálaáætlun sé einungis talað um 41% af því sem þarf, en bætir sjálf bara við milljarði. Af hverju? Hvað eigum við að segja að sé gott? Hvað er nóg? Hvenær erum við komin að sársaukamörkum o.s.frv.? Við getum eilíflega deilt um það. En athafnir verða að fylgja orðum og Samfylkingin leggur ekki fram nema að litlu leyti, miðað við eigin málflutning — talandi um að gagnrýna málflutning Vinstri grænna — í samræmi við það sem hv. þingmaður o.fl. haft orð um. Og ég gæti tekið tíu andsvör í viðbót.