148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023. Ég mæli einnig fyrir um breytingartillögu við sömu áætlun.

Ég ætla að byrja á því að víkja aðeins að efnahagsforsendum. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar boðar mikla aukningu á ríkisútgjöldum. Útgjöldin koma til með að aukast á tímabilinu um 26% að nafnvirði. Reynslan sýnir að ríkisútgjöld hafa nær undantekningarlaust aukist meira en áætlað var. Af þeim sökum er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir framúrkeyrslur. Á sama tíma eru boðaðar skattalækkanir sem gera ráð fyrir 1% lækkun tekjuskattsprósentu, neðra þreps. Samspil þessara tveggja þátta hefur aldrei gefist vel í hagstjórn og verður að teljast óábyrgt á tímum uppgangs í efnahagslífinu.

Fjármálaáætlunin byggir á hagvaxtarskeiði sem er án nokkurra fordæma. 3. minni hluti tekur undir með Viðskiptaráði Íslands sem segir í umsögn sinni að í fjármálaáætluninni birtist aukinn slaki í ríkisfjármálum, of bjartsýnar forsendur og mikil umsvif hins opinbera.

Í greinargerð fjármálaáætlunarinnar segir:

„Raungengi, sem mælir hlutfallslegt verðlag á Íslandi miðað við útlönd, náði einnig hámarki á miðju árinu 2017 og er enn mjög hátt í sögulegu samhengi. Þegar gengið hefur áður náð viðlíka styrk hefur það undantekningalaust gefið eftir í kjölfarið.“

Þrátt fyrir þetta er engu síður gert ráð fyrir hækkandi raungengi á næstu árum sem gengur augljóslega gegn grunngildinu um varfærni í lögum um opinber fjármál. Þar af leiðandi virðist sú mikla útgjaldaaukning sem byggir á fordæmalausri efnahagsþróun enn fremur ganga gegn varfærnisgildi laganna.

Á undanförnum árum hefur verið mikill uppgangstími í efnahagslífi landsmanna sem að stórum hluta má rekja til vaxtar í útflutningi á ferðaþjónustu. Þrátt fyrir vaxandi mikilvægi atvinnugreinarinnar í þjóðarbúskapnum er erfitt að átta sig á áhrifum hennar á umrædda áætlun og á helstu hagstærðir í hagspánni, hvert vægi hennar er til að mynda í boðuðum hagvexti og þar með afkomu hins opinbera næstu missirin. Þar skortir á að draga betur fram það nána samband sem hefur verið á milli vaxtar í ferðaþjónustu, hagvaxtar og tekjuöflunar hins opinbera.

Taka skal undir það sem kemur fram í umsögn Samtaka iðnaðarins að efnahagsforsendur í fjármálaáætluninni eru allt of bjartsýnar. Við sjáum merki um að það er að draga úr spennu. Í fjármálaáætluninni er of mikið horft í meðaltalið, langtímaspár hafa því miður verið mjög lélegar í því að rætast. Horfa þarf betur til þess hverju innviðafjárfestingar eru að skila og áhrif þeirra á hagkerfið. Það eykur framleiðni í hagkerfinu ef innviðafjárfestingunum væri skipt betur niður á tímabil fjármálaáætlunarinnar. Það hefur áhrif á hitnun hagkerfisins ef við förum í innviðafjárfestinguna á skömmum tíma.

Óvissa ríkir um efnahagsþróun til einungis eins árs og hvað þá fimm ára eins og fjármálaáætlunin tekur til. Af þeim sökum er ekki bara gagnlegt heldur nauðsynlegt að stjórnvöld upplýsi hvernig þau hyggjast forgangsraða, bæði ef efnahagsþróunin verður hagfelldari eða verri. Fyrir því er ekki að fara í áætluninni og verður það að teljast mikill annmarki. Stjórnvöld verða að getað hagað stefnu hvers árs eftir því hvernig frávikið í efnahagsþróuninni er.

Í lögum um opinber fjármál er gerð krafa um að stefnan sem birtist í fjármálaáætluninni feli í sér gagnsæi en það er nauðsynlegt til þess að lesendur geti áttað sig á því hvernig fjárheimild til hvers málefnasviðs er útskýrð. 3. minni hluti telur að framsetningin uppfylli ekki þær kröfur. Nefna má ferðaþjónustuna sem dæmi, gert er ráð fyrir að tekjur af gistináttagjaldi verði um 1,4 milljarðar kr. í ár en áformuð útgjöld til fjárfestinga eru einungis um 700 millj. kr. Takmarkaðar upplýsingar eru um forgangsröðun í fjárfestingum. Ekki verður séð að það uppfylli skilyrði um gagnsæi.

Það vantar aukinn og víðtækari stöðugleika. Fyrirtæki þurfa að taka á sig mjög óstöðugt starfsumhverfi. Hagkerfið er lítið og sveiflukennt eins og við þekkjum. Það þarf því að tryggja fjölbreytileika í efnahagslífinu.

Í sameiginlegum ábendingum fjárlaganefndar við fjármálaáætlunina kemur fram að umfjöllun um fjárfestingar þurfi að vera ítarlegri. Við þetta vill 3. minni hluti bæta að í fjármálaáætluninni er ekki mikill greinarmunur á því hvað fer í rekstur og hvað fer í fjárfestingar. Það vantar skýrari greinarmun með sama hætti og gert er í ríkisreikningnum. Framsetningin verður að vera með þeim hætti að ekki valdi misskilningi.

Herra forseti. Áður en ég kem að einstökum málaliðum eða málefnasviðum þá ætla ég að fara aðeins yfir breytingartillöguna.

Hún gengur út á það að sérstakt aukaframlag verði til lögbundinna stofnana ríkisins á Suðurnesjum; Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, lögreglustjórans á Suðurnesjum og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Lagt er til að á gildistíma fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar 2019–2023 komi til greiðslu sérstakt aukaframlag til lögbundinna stofnana ríkisins á Suðurnesjum að upphæð samtals 700 millj. kr. Framlagið skiptist þannig: Til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, HSS, verði sérstakt aukaframlag að upphæð 93 millj. kr. árlega og til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum verði aukaframlagið 40 millj. kr. árlega. Til Fjölbrautaskóla Suðurnesja verði sérstakt einskiptisframlag upp á 35 millj. kr. svo ljúka megi stækkun skólans og fjármögnun í því sambandi. Fjárframlagið til fjölbrautaskólans komi til greiðslu árið 2020.

Fólksfjölgun á Suðurnesjum er fordæmalaus. Á síðustu sex árum hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um rúm 22%, fjöldi erlendra ríkisborgara þrefaldast og fjölgun hælisleitenda margfaldast. Fjöldi erlendra íbúa á Suðurnesjum er nú 20%. Í Reykjanesbæ var almenn íbúafjölgun 9% árið 2017. Þess má geta að á Norðurlöndum eru byggðir skilgreindar sem sérstök vaxtarsvæði ef fjölgunin er meiri en 1,5% á ári. Á Suðurnesjum er um að ræða hlutfallslega langmestu fólksfjölgun á landinu. Fjölgun erlendra ríkisborgara á svæðinu má skýra samhliða aukinni þörf á vinnuafli, einkum vegna umsvifa í kringum alþjóðaflugvöllinn.

Framlög ríkisins til lögbundinna stofnana á Suðurnesjum hafa um langt árabil verið lægri en til sambærilegra stofnana í öðrum landshlutum. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa leitað eftir skýringum og leiðréttingu frá stjórnvöldum en án árangurs. Fólksfjölgun á Suðurnesjum hefur verið langt umfram meðaltalsfjölgun á landinu öllu en aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á svæðinu hefur á engan hátt fylgt þeirri þróun.

Stjórnvöld verða að tryggja að fjármagn til lögbundinna verkefni á Suðurnesjum, sem þau bera ábyrgð á, sé í hlutfallslegu samræmi við sambærilegar stofnanir á landsbyggðinni og fylgi auk þess eftir þeirri fordæmalausu fólksfjölgun sem verið hefur á svæðinu, annars stefnir í óefni. Í samanburði við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með lægstu fjárframlög frá ríkissjóði á hvern íbúa.

Brýnt er að fjölga starfsmönnum í heilsugæslu og þá sérstaklega læknum og hjúkrunarfræðingum til að mæta fyrirliggjandi þjónustuþörf. Auk þess þarf að styrkja slysa- og bráðadeild HSS.

Hin fordæmalausa fólksfjölgun á Suðurnesjum kallar á aukna löggæslu, bæði í almennri deild og rannsóknardeild lögreglunnar. Árið 2007 voru ársverk í almennri deild lögreglunnar á Suðurnesjum 46. Árið 2017 voru þau 40. Ársverkum hefur því fækkað á sama tíma og íbúum hefur verulega fjölgað og erlendum verkamönnum jafnframt fjölgað, svo og ferðamönnum og hælisleitendum eins og áður segir. Allt hefur þetta áhrif á hinn almenna borgara þegar kemur að öryggi.

Til Fjölbrautaskóla Suðurnesja er gert ráð fyrir sérstöku einskiptisfjárframlagi upp á 35 millj. kr. svo að ljúka megi fjármögnun vegna stækkunar skólans eins og áður segir. Það er nauðsynlegt til þess að mæta auknum fjölda nemenda á næstu árum.

Lagt er til að þessi sérstaka aukafjárveiting til lögbundinna stofnana ríkisins á Suðurnesjum verði fjármögnuð úr ríkissjóði. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar var stofnað árið 2006 til að koma eignum sem ríkið tók við af Bandaríkjaher í borgaraleg not með sem mestum jákvæðum áhrifum á nærsamfélagið, Suðurnesin. Þegar þróunarfélagið tók við eignunum voru þær metnar á 4–5 milljarða kr. og var einkum horft til þess að sala þeirra stæði undir kostnaði. Búið er að selja um 95% eignanna í dag. Áætlað heildarsöluandvirði þeirra er um 18 milljarðar kr. Hreinar tekjur ríkissjóðs af sölunni eru um 10 milljarðar kr. sem er langt umfram upphaflegar væntingar. Tekjur af sölu eignanna hafa runnið beint til ríkissjóðs en ekki til verkefna á Suðurnesjum. Hér er því lagt til að 7% af hreinum tekjum ríkissjóðs af sölunni renni til lögbundinna stofnana ríkisins á Suðurnesjum. Ástæðan er fordæmalaus fólksfjölgun á svæðinu og nauðsynlegar leiðréttingar á lögbundnum fjárframlögum ríkissjóðs til fyrrnefndra stofnana eins og rakið hefur verið hér að framan.

Frú forseti. Þá ætla ég að víkja að nokkrum málaflokkum eftir því sem tími gefst til.

Ég vil aðeins koma inn á atvinnulífið. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig á árinu 2019, úr 6,85% í 6,6%. Þetta er jákvætt skref. Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að tryggingagjald beri að lækka meira eða um 0,5 prósentustig. Flutti flokkurinn m.a. breytingartillögu þess efnis við síðustu fjárlög. Svigrúmið er til staðar vegna minnkandi atvinnuleysis og góðrar stöðu ríkissjóðs auk þess sem fyrirheit voru gefin af hálfu ríkisvaldsins um þvílíka lækkun í tengslum við gerð kjarasamninga árið 2016.

Tryggingagjaldið er enn 1,5 prósentustigi hærra en það var fyrir tíu árum og leggst sérstaklega þungt á lítil fyrirtæki, t.d. tækni- og nýsköpunarfyrirtæki, þar sem launakostnaður þeirra er hlutfallslega hærri en hjá stærri fyrirtækjum.

Í fjármálaáætluninni er lítið fjallað um áhrif hækkandi raungengis á samkeppnisstöðu atvinnulífsins almennt. Þar er heldur ekki fjallað um áhrif hækkandi raungengis á eftirspurn erlendra ferðamanna og hvaða áhrif það samspil mun hafa á skatttekjur hins opinbera.

Í fjármálaáætlun er því haldið fram að breytingar á skattumhverfinu á undanförnum árum hafi verið til hagsbóta fyrir einstaklinga og stuðlað að verulegri kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna. Þetta á ekki við um örorkulífeyrisþega og annað lágtekjufólk.

Í fjármálaáætluninni er hins vegar gert ráð fyrir 1% lækkun á tekjuskattsprósentu neðra þreps eins og ég nefndi hér fyrr. Slík lækkun þýðir að lífeyrisþegi með óskertan lífeyri fengi tæplega 2.400 kr. lækkun á meðan launþegi með rúmar 839 þús. kr. á mánuði fengi tæplega 9.000 kr. lækkun. Þessi aðgerð ein og sér veldur því ójöfnuði.

Ef lækka á tekjuskatt þarf að útfæra lækkunina með þeim hætti að hún gagnist best þeim sem lægst launin hafa. Leggja ber frekar áherslu á mikilvægi hækkunar persónuafsláttar fremur en lækkun tekjuskattsprósentu sem hefur lítið að segja fyrir fólk með lægstar tekjurnar.

Hækkun persónuafsláttar nýtist lágtekjufólki mun betur en lækkun skattprósentu. Hækkun persónuafsláttar er einföld og skilvirk leið til að bæta kjör hinna lægst launuðu, eykur jöfnuð og flækir ekki skattkerfið. Árið 2018 greiða skattgreiðendur tekjuskatt af tekjum yfir 145 þús. kr. eða rúmlega það á mánuði. Þessu þarf að breyta og væri eðlilegt að skattleysismörk væru 300 þús. kr. á mánuði. Það væri mikil kjarabót þeirra lægst launuðu.

Ein af meginástæðum aukinnar skattbyrði, einkum lágtekjufólks, er að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun. Persónuafsláttur hefur mest áhrif á þá tekjulægstu þar sem um er að ræða fasta upphæð. Því yrði veruleg hækkun hans mikil kjarabót fyrir lágtekjufólk. Í fjármálaáætluninni er ekki gert ráð fyrir hækkun persónuafsláttar umfram lögbundna verðlagsuppfærslu hans.

Frú forseti. Næst ætla ég að víkja að málefnum landbúnaðarins. Það er til marks um áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum landbúnaðarins að hans er hvergi getið í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við fjármálaáætlunina.

Þann 1. maí sl. gekk í gildi tollasamningur íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið. Samningurinn mun hafa víðtæk áhrif á íslenska búvöruframleiðslu. Engin úttekt fór fram á áhrifum samningsins á innlenda búvöruframleiðslu auk þess sem samráð við hagsmunasamtök bænda á Íslandi í samningsgerðinni var lítið sem ekkert. Bændasamtök Íslands hafa þungar áhyggjur af samningnum og ályktaði búnaðarþing í þá veru að segja beri samningnum upp. Engar mótvægisaðgerðir hafa komið fram af hálfu stjórnvalda svo draga megi úr því mikla tekjutapi sem bændur standa frammi fyrir.

Ekkert kemur fram í fjármálaáætluninni um sérstakan stuðning við landbúnaðinn vegna áhrifa samningsins á innlenda búvöruframleiðslu. Það er því ljóst að ríkisstjórnin er áhugalaus um hag íslensks landbúnaðar. Það birtist enn frekar í því að framlög til landbúnaðar munu lækka jafnt og þétt á næstu fimm árum eða á gildistíma áætlunarinnar, úr 16 milljörðum kr. árið 2019 í 15,4 milljarða kr. árið 2023.

Næst vil ég aðeins víkja að samgöngumálunum. Stórátak í samgöngumálum er boðað af hálfu ríkisstjórnarinnar, en það verður að segjast eins og er að það er orðum aukið í sögulegum samanburði. Það þarf meira fé til frambúðar. Uppsafnaður vandi í þjóðvegakerfinu er um 70 milljarðar kr. og 50–60 milljarðar í vegakerfi sveitarfélaga. Þó að vissulega beri að fagna auknum fjárveitingum í þennan mikilvæga málaflokk er aðferðafræðin gagnrýniverð eins og sú að til stendur að fjármagna hluta átaksins með framlagi úr almenna varasjóðnum, hinum lögbundna varasjóði. Sjóðurinn er fyrst og fremst hugsaður til að standa straum af ófyrirséðum og óvæntum útgjöldum, t.d. vegna náttúruhamfara. Með því er verið að skapa slæmt fordæmi þegar kemur að nýtingu varasjóðsins.

Í samgöngumálum þarf að forgangsraða betur. Meta þarf arðsemi framkvæmda miðað við þjóðarhag.

Aðeins að menntamálunum. Skipting fjárveitinga eins og þær birtast í fjármálaáætluninni er ójöfn eftir skólastigum.

Samkvæmt stjórnarsáttmálanum boðar ríkisstjórnin til stórsóknar í menntamálum með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar að leiðarljósi en ekki er að sjá að nægilegt fjármagn fylgi þeim fyrirheitum. Í fjármálaáætluninni kemur fram að samkvæmt mannfjöldaspá mun fjöldi nemenda við leik- og grunnskóla fara úr 72 þús. nemendum á þessu ári í tæplega 78 þús. árið 2022. Það er því mikið áhyggjuefni að útgjöld skuli ekki fylgja þessum mikla fjölda og þessum mikilvæga málaflokki.

Brýnt er að auknum fjármunum verði varið til menntunar fatlaðra barna og ungmenna ásamt börnum og ungmennum með sérþarfir til að þau fái sömu tækifæri til jafns við aðra.

Athygli vekur að lögð er áhersla á að nemendur ljúki prófi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma en slíkt getur reynst nemendum með sérþarfir erfitt. Ekki er að sjá að framlag til sérkennslu og stuðnings sé aukið til að koma til móts við auknar kröfur í þessa veru.

Í fjármálaáætluninni kemur fram að stuðla þurfi markvisst að nýsköpun og þróun í kennslu og tryggja að kennarar séu hæfir, bæði með tilliti til faglegrar þekkingar og færni til að miðla henni. Hvergi er að sjá aðgerðir sem stuðla að viðeigandi aðlögun nemenda til að tryggja að jöfn tækifæri til náms séu til staðar.

Í áætluninni segir að til standi að endurskoða lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna, LÍN, og þróa námsstyrkjakerfi, að aðgengi að háskólanámi sé óháð efnahag, búsetu og öðrum aðstæðum og sérstaklega sé gætt að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Endurskoðun á lögum um LÍN er stórt mál fyrir stóran hóp fólks. Til að stuðla að betri og bættri námsframvindu er stefnt að því að nemendur sem geta sýnt fram á fulla námsframvindu eigi rétt á námsstyrk til framfærslu meðan á skólaárinu stendur. Hér þarf að stíga varlega til jarðar. Það þarf að tryggja að niðurgreiðsla styrkja komi ekki niður á vaxtastigi námslána. Tekjutenging afborgana námslána skiptir verulegu máli þegar kemur að láglaunastörfum. Þetta þarf allt að hafa í huga við endurskoðun laganna.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðað að iðn-, verk- og tækninám verði eflt. Aðgerðir skorti hins vegar um hvernig eigi að ná tilætluðum árangri. Gera þarf mun betur í því að efla iðntækninám og listnám. Framlögin í fjármálaáætlun duga hvergi nærri til.

Það er ljóst að öflugt fagháskólanám, sem er brúin frá iðnnámi yfir í háskóla, er ein að mikilvægustu forsendum þess að auka áhuga og aðsókn nemenda að verk- og starfsnámi á framhaldsskólastigi.

Í fjármálaáætluninni er ekkert að finna um þróun fagháskólanáms, hvergi er á það minnst né hvernig eigi að efla iðnnám á framhaldsskólastigi.

Gera þarf iðnnám aðgengilegra. Iðnnám er hagnýt menntun og alþjóðleg og veitir m.a. aðgang að störfum erlendis. Nærumhverfið þarf að breyta sínum viðhorfum um að þetta sé ekki annars flokks nám.

Það er dapurlegt að í fjármálaáætluninni eru framlög til menntunar þeirra sem eru á vinnumarkaði og hafa ekkert nám skorin niður.

Ég vil þá víkja aðeins næst að sveitarstjórnarstiginu og byggðamálum. Alþingi samþykkti, í þverpólitískri sátt, nýverið lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, svokölluð NPA-lög. Uppfæra þarf alla þjónustu við fatlað fólk í takt við nýju lögin þar sem gert er ráð fyrir hærra þjónustustigi en í gömlu lögunum og að komið sé betur til móts við þarfir fatlaðs fólks, t.d. varðandi fjölskyldulíf, tómstundir og þátttöku í samfélaginu.

Af fjármálaáætlun að sjá er ekki hægt að greina að gert sé ráð fyrir verulegri aukningu á fjármagni vegna laganna, nema til tiltekinna þátta sem getið er um í greinargerð með frumvarpinu og nægir ekki til að uppfylla skyldu opinberra aðila sem skapast með þjónustuaukningunni sem felst í lögunum. Það er mikilvægt að þetta verði lagfært svo að ekki skapist óþarfa núningur á milli notenda og sveitarfélaga. Mikilvægt er að ríkið komi sem mest til móts við sveitarfélög hvað varðar kostnað við NPA-þjónustu til að útrýma mögulegri mismunun á grundvelli búsetu.

Í þessu sambandi má benda á að í umsögn Öryrkjabandalagsins við fjármálaáætlunina kemur fram að aukafjármagn ríkisins upp á 300 millj. kr. árlega myndi tryggja lagalegan rétt fólks til NPA.

Hækkun kolefnisgjalds er ekki síst byggðamál vegna þess að það kemur hvað verst niður á þeim sem búa í dreifbýli og þurfa jafnvel að aka um langan veg vegna vinnu. Kolefnisgjald var hækkað í upphafi árs 2018 um 50% en fyrirhugað er að gjaldið hækki um 10% árið 2019 og aftur um 10% árið 2020. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili ríkissjóði um 600 millj. kr. árlega. Með kolefnisgjaldi á eldsneyti er m.a. verið að hvetja til orkuskipta, t.d. rafbílavæðingu. Þó ber að nefna að innviðauppbygging fyrir rafbíla er enn í dag takmörkuð. Auk þess sem það er síður en svo á allra færi að kaupa sér nýjan rafbíl.

Svo mikil hækkun kolefnisgjalda mun setja auknar byrðar á einstaklinga sem geta síður breytt sínum samgöngumáta, m.a. út af fjárhag eða lélegum innviðum.

Ég vil þá næst víkja að húsnæðismálunum. Erfiðar aðstæður ríkja á húsnæðismarkaði og mikill fjöldi einstaklinga býr við óviðunandi húsnæðiskjör. Það er mat Íbúðalánasjóðs að um 50 þús. einstaklingar séu á leigumarkaði og af þeim séu tekjulágir og ungt fólk í miklum meiri hluta.

Samkvæmt skýrslu Íbúðalánasjóðs ná leigjendur síður að safna sparifé og tekjulágir leigjendur búa að jafnaði við íþyngjandi húsnæðiskostnað og þurfa að greiða yfir 50% af ráðstöfunartekjum í leigu. Hlutfallið er hið hæsta á Norðurlöndum. Aðstæður sem þessar ýta undir ójöfnuð og staða leigjenda hefur ekki batnað.

Árið 2015 gerðu stjórnvöld samkomulag við verkalýðshreyfinguna um að hefja aftur uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis með byggingu 2.300 íbúða á árunum 2016–2019, að hámarki 600 íbúðir á ári. Komið hefur í ljós að þessi framlög duga ekki til þess að hægt verði að byggja þessar 600 íbúðir árlega. Ekki er að sjá að í fjármálaáætluninni sé gert ráð fyrir þessu né gert sé ráð fyrir eðlilegri hækkun byggingarkostnaðar á næstu árum í tengslum við þessar framkvæmdir.

Í fjármálaáætluninni er síðan gert ráð fyrir að dregið verði verulega úr framlögum til almennra íbúða þrátt fyrir knýjandi þörf fyrir fjölgun íbúða. Alþýðusamband Íslands hefur lagt áherslu á að byggja þurfi a.m.k. 1.000 íbúðir á ári til þess að hægt verði að mæta þessum þörfum, en til þess þurfa framlögin að hækka um 2.400 millj. kr. á ári.

Fleiri almennar íbúðir er besta lausnin við vanda verst setta hópsins á húsnæðismarkaði og ýta undir stöðugri og heilbrigðari húsnæðismarkað. Stjórnvöld verða að stíga inn með afgerandi hætti til að leysa þann vanda sem er á húsnæðismarkaði.

Í fjármálaáætluninni segir:

„Hvað félagslegar umbætur varðar er áhersla lögð á að skilgreina og komast að sameiginlegum skilningi á þýðingu félagslegs stöðugleika. Í þessu sambandi verður áhersla m.a. lögð á húsnæðismál.“

Þessi göfugu markmið eru hrein öfugmæli þegar horft er á það að ríkisstjórnin boðar mikinn niðurskurð í húsnæðisstuðningi í fjármálaáætluninni.

Ég vil næst víkja að vaxtabótum og barnabótum. Það er afar brýnt að félagslegum stöðugleika sé viðhaldið og vaxtabótakerfið hefur reynst nauðsynlegt til að koma til móts við tekjulága einstaklinga. Hópur lágtekjufólks, þar með talið örorkulífeyrisþegar, hefur á síðustu árum ekki fengið greiddar vaxtabætur þrátt fyrir að greiða af húsnæðislánum.

Hins vegar hefur fasteignamat almennt hækkað mikið síðustu ár, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögunum. Hækkanir eignastofna hafa ekki verið í neinu samræmi við hækkun fasteignamats og fasteignaverðs. Afleiðingin er sú að fækkað hefur mikið í hópi þeirra sem fá greiddar vaxtabætur og á það einnig við um tekjulágt fólk.

Við þessu verður ríkisvaldið að bregðast með markvissum aðgerðum, t.d. með því að hækka eignastofna og draga út tekjuskerðingum. Í fjármálaáætluninni segir að húsnæðisstuðningur í formi vaxtabóta verði að raungildi óbreyttur út áætlunartímann. Það eru mikil vonbrigði.

Ég vil næst aðeins víkja að bankaskattinum og einnig fjármagnstekjuskattinum. Í fjármálaáætluninni kemur fram að ríkisstjórnin hyggst lækka sérstakan bankaskatt um allt að 7,3 milljarða kr. og lækkunin verði gerð í fjórum skrefum. Þessi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er vægast sagt undarleg, ekki síst í ljósi þess að hún hyggst ekki bæta kjör verst settu þjóðfélagshópanna eins og öryrkja og aldraðra svo neinu nemur. Lækkun skattsins kemur til með að gagnast m.a. sérstaklega eigendum Arion banka sem eru vogunarsjóðirnir.

Fjármagnstekjuskattur hækkaði um áramótin úr 20% í 22%. Miðflokkurinn lagðist gegn þessari hækkun. Hafi markmið ríkisstjórnarinnar verið að jafna skattbyrði óháð uppruna tekna er réttara að lækka fjármagnstekjuskatt fremur en að hækka hann. Skatturinn bitnar illa á eldra fólki sem m.a. vill leigja út húsnæði sitt. Með þessu er verið að leggja stein í götu fólks sem bæði hefur vilja og getu til að leigja út íbúðarhúsnæði á tímum þegar skortur er á slíku.

Tímans vegna hef ég ekki náð að fara yfir alla þá liði sem ég hafði í hyggju, en ég vil nefna ferðaþjónustuna og að sjálfsögðu heilbrigðismálin. Þar eru kannski stærstu tíðindin uppbygging við Hringbraut. Miðflokkurinn hefur lagst gegn þeim áformum og telur að eðlilegra sé og mun hagkvæmara og skynsamlegra að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað.

Ég hefði einnig viljað koma frekar inn á kjaramálin. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir stöðugleika. Hins vegar eru teikn á lofti um að óstöðugleiki sé fram undan vegna þeirra sviptinga sem hafa átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu og það er breytt staða innan hreyfingarinnar. Nýir foringjar og nýjar kynslóðir eru að taka við. Nú eru teikn á lofti um að það sé þegar farið að íhuga aðgerðir. Menn gera sér ekki grein fyrir hvað gæti gerst. Þess vegna er nauðsynlegt að það sé svigrúm til þess að mæta þessum aðstæðum. Þar hefur því miður verið gengið á varasjóðinn eins og ég nefndi varðandi samgönguþáttinn, sem er að mínu mati óskynsamlegt.

Að lokum, frú forseti, þá á fjármálaáætlun samkvæmt lögum um opinber fjármál að sýna markmið, mælikvarða og aðgerðir á greinargóðan hátt. Það gerir hún hins vegar ekki nægilega vel að mati 3. minni hluta. Hún er því ekki gagnsæ. Ógagnsæi ríkir milli innviðafjárfestinga og annarra fjárfestinga. Það má þó finna jákvæða punkta í áætluninni eins og niðurgreiðslur skulda og að sama skapi er átak í samgöngumálum og aukning til heilbrigðismála jákvætt. (Forseti hringir.)

Að lokum eru forsendur fjármálaáætlunar byggðar að mínu mati (Forseti hringir.) á óraunsærri bjartsýni á þróun efnahagsmála til næstu fimm ára. Í áætluninni er verið að búa til væntingar um fjárútlát (Forseti hringir.) sem síðan geti reynst erfitt að standa við. (Forseti hringir.) Ég tel því að fjármálaáætlunin sé á ystu nöf stöðugleika.