148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og ég nefndi áðan erum við að horfa á mikið hagvaxtarskeið. Þó að uppgangur sé í þjóðfélaginu í dag eru teikn á lofti um að hratt dragi úr þeim uppgangi og við séum að fara niður á við hvað það varðar.

Um tímasetningarnar á skattalækkunum, ég held að það sé alveg grundvallaratriði í hagfræði þótt ég sé ekki hagfræðingur — ég er reyndar guðfræðingur, en það er stundum ágætissamspil á milli þeirra fræðigreina, að minnsta kosti hvað skynsemi varðar — þá held ég að öllum sé ljóst að það er óskynsamlegt að lækka skatta þegar mikill uppgangur er. Það held ég að séu alveg viðurkennd fræði. En ég hefði þá talið eðlilegast að — ég tek fram að ég er ekki á móti skattalækkunum, það þarf bara að gera það skynsamlega þannig að það nýtist almenningi sem best. Það mun örva efnahagslífið að lækka skatta þegar við erum komin í töluverða niðursveiflu og þörf er á því að örva efnahagslífið. Það er mín hugsun á bak við þetta. Ég kem kannski í síðara andsvari inn á það sem hv. þingmaður kom inn á.

Við horfum líka upp á óvissu í efnahagsþróun til eins árs, hvað þá til fimm ára eins og fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir. Af þeim sökum held ég að skynsamlegt sé (Forseti hringir.) að bíða aðeins með skattalækkanir og sjá hvernig málin þróast, þó væri ekki nema næsta árið.