148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt spurningin, eins og ég kom inn á í máli mínu rétt áðan, með hagsveifluna. Ég tel að við séum að fara inn í mjög temprað umhverfi næstu árin, að minnsta kosti gerir ríkisfjármálaáætlunin og þjóðhagsspáin ráð fyrir því, þar sem við erum kannski með tæplega 3% hagvöxt, verðum komin niður í 3%. Það verða því breyttar forsendur frá þeim gríðarlega hagvexti sem var árið 2016 upp á 7,4%, svo maður komi því til skila.

Mig langar að spyrja um atriði á bls. 10 í nefndarálitinu, undir kjaramál, þar sem stendur og mér finnst áhugavert: Staðan er gjörbreytt innan verkalýðshreyfingarinnar og hún er róttækari en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Ríkisstjórnin getur ekki horft fram hjá þessum miklu breytingum sem við höfum orðið vitni að innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er gjörbreyting. Breyting sem við höfum ekki séð í áratugi. Það verður að taka tillit til þess í fjármálaáætluninni.

Spurningin mín um þennan þátt er: Hvernig getum við tekið á þessu í ríkisfjármálaáætluninni varðandi þá gjörbreytingu sem hefur orðið á atvinnumarkaði eða kjaramarkaðnum?