148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég kom aðeins inn á þetta áðan í ræðu minni, að það er náttúrlega alveg þekkt í kjaramálum að aðkoma ríkisins skiptir máli og er oft til þess að leysa deilur og mikilvægt er að ríkisvaldið hafi svigrúm og getu til þess.

Ráðstöfunum af því tagi fylgja að sjálfsögðu útgjöld. Í þessu tilfelli hefði verið skynsamlegt að fara ekki í varasjóðinn með þeim hætti sem gert var, teknir um 4,4 milljarðar úr varasjóðnum til að fara í samgöngubætur, einfaldlega vegna þess að við þurfum að geta átt aðgang að þeim sjóði ef ófyrirsjáanlegir þættir eiga sér stað, sem getur vissulega orðið á kjarasviðinu og sérstaklega í ljósi þeirra breyttu aðstæðna sem eru innan stóru verkalýðshreyfingarinnar í dag.