148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Það verður ekki annað sagt en að meðferðin á hinum almenna varasjóði, sem svo rækilega er fjallað um í 24. gr. laganna um opinber fjármál, komi á óvart. Ég leyfi mér jafnvel að segja að hér höggvi sá er síst skyldi, vegna þess að þetta er augljóslega sett sem varúðarákvæði og undirstrikað með langri upptalningu, eins og ég og fleiri hv. þingmenn fórum yfir varðandi hvaða skilyrðum þurfi að vera fullnægt til þess að nýta megi fé úr þessum sjóði. Eitt af þeim skilyrðum sem var ítarlega rætt í fjárlaganefnd og á fundi með fjármálaráðherra þegar hann kom fyrir nefndina, er að tilefni útgjaldanna verður að vera ófyrirsjáanlegt. Það er ekkert ófyrirsjáanlegt við það að vegir landsins, sem eru slæmir fyrir, komi enn þá verri undan vetri. Það er ekki nokkur leið að komast að þeirri niðurstöðu.

Ég vil árétta það sem ég sagði í ræðu minni að það er að beiðni fjárlaganefndar sem Ríkisendurskoðun vinnur að umsögn um þessa ráðstöfun. Hennar er beðið með mikilli eftirvæntingu. Ef Ríkisendurskoðun telur að þetta sé eðlileg meðferð á hinum almenna varasjóði, að þeim kröfum sem settar eru í 24. gr. laganna hafi verið fullnægt, er hættunni boðið heim, verð ég að leyfa mér að segja eins og ég rakti ítarlega í ræðu minni.