148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Í umfjöllun um þjóðarsjóð sér fjármálaráð, svo grandvart og gætið sem það er í öllu sínu orðalagi og framsetningu, ástæðu til þess að vekja athygli á hugtaki sem kallað er freistnivandi í áliti fjármálaráðs. Freistnivandi er afar smekklegt og kurteislegt hugtak fyrir það sem í daglegu tali gæti jafnvel verið kallað spilling. Með öðrum orðum, verið er að vara við því að bjóða heim hættunni á frjálslegri umgengni, ef ég leyfi mér að orða það svo, um þennan sjóð. Við erum hér með nýlegt dæmi um umgengni um ríkissjóð, þ.e. hinn almenna varasjóð, sem sýnist mjög orka tvímælis svo ekki sé meira sagt. (Forseti hringir.) Samt erum við með ríkissjóð sem er varinn í bak og fyrir af hvers kyns lagaákvæðum sem ætlað er að tryggja trausta og ábyrga (Forseti hringir.) meðferð fjármuna sjóðsins.