148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég nýt þess heiðurs að mér er rétt hérna fylgiskjal til athugunar. Málið er það að letrið er of smátt fyrir mig til að ég geti almennilega áttað mig á tölunum þannig að ég verð að biðjast velvirðingar á því.

Ég ætlaði bara að segja vegna þessarar athugasemdar hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar að nota 2017 sem viðmiðunarár þegar að við erum að fjalla um fjármálaáætlun 2019–2023, að þetta rifjar upp orð sem eru eignuð Disraeli, fyrrum forsætisráðherra Bretlands: Það eru til lygar, það eru til bannsettar lygar og það er til tölfræði. Það er hægt að búa til alls konar myndir af veruleikanum eftir því hvernig hlutirnir eru settir fram, líka hvernig þeir eru settir fram í tölulegu ljósi.

Ég ætla að leyfa mér að segja það sem almenna ályktun að (Forseti hringir.) þegar við erum að fjalla um þetta tímabil þá hefði maður haldið fyrir fram að (Forseti hringir.) viðmiðunarárið væri, herra forseti, 2018.