148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir prýðisræðu og innlegg í umræðuna, fyrir vandað nefndarálit frá 4. minni hluta fjárlaganefndar.

Hv. þingmaður fór yfir ráðstafanir ríkisstjórnar úr almennum varasjóði á þessu fjárlagaári 2018 og rakti þau ströngu skilyrði sem fram koma í 24. gr. laga um opinber fjármál þar sem talað er um að þau verði að vera tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg og ekki sé unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögunum og einnig að varasjóður skuli nema ákveðnu hlutfalli, 1% af fjárheimildum fjárlaga.

Kveðið er á um það hér, greinin er ekki löng, með leyfi forseta: „Ráðherra tekur ákvörðun um ráðstöfun fjár úr varasjóði og gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir nýting þess þegar ákvörðun liggur fyrir.“

Fjárlaganefnd fylgdi eftir þessu fyrirkomulagi og fékk á sinn fund fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann gerði grein fyrir og rökstuddi hvernig þessi skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt.

Í greinargerð segir að fjárlaganefnd skuli upplýst um notkun fjár úr almennum varasjóði þegar ákvörðun ráðherrans liggi fyrir.

Spurningin er þessi: Sér hv. þingmaður fyrir sér (Forseti hringir.) einhvers konar lagabreytingu í kjölfarið á þessari umfjöllun?