148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir andsvarið. Ég tel að við séum að ræða afar þýðingarmikið mál. Við erum að tala um raunverulega framkvæmd á því hvernig menn nota eða nota ekki hinn almenna varasjóð. Við erum aðeins að fjalla um eðlilegan skilning á þeim ákvæðum sem þar gilda. Búið er að fara yfir það, hér hefur maður gengið undir manns hönd við að ræða þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi svo nýta megi þennan varasjóð. Það hefur verið gert ekki bara í þessum ræðustól heldur líka ítarlega á vettvangi fjárlaganefndar, þar á meðal á fundi með ráðherra.

Spurningin er: Hver er merking þeirra ákvæða sem eru um samskipti fjárlaganefndar og ráðherra?

Verður ekki að gera ráð fyrir því að á milli þessara aðila ríki gagnkvæm virðing og tillitssemi? Verður ekki að gera ráð fyrir því að ráðherra leggi eitthvað upp úr því hvað fram kemur á slíkum fundi, hver viðbrögð fjárlaganefndar eru við áformum um einhverja aðgerð og hvernig ráðherra rökstyður að þessi áform fái samrýmst þeim ákvæðum sem þarna gilda, þ.e. 24. gr. laganna um opinber fjármál? Það er raunverulega það sem ég geri að umræðuefni, hv. þingmaður.

Ég verð að leyfa mér að segja að eftir þennan fund var ég eilítið hugsi og hef verið síðan, enda tel ég að hér sé mikið undir, þ.e. hvernig menn umgangast lögin um opinber fjármál, svo ég leyfi mér að orða það þannig. Þetta eru grundvallarlög (Forseti hringir.) um fjárhagsbúskap ríkissjóðs. Mjög vel var til þeirra vandað, eins og ég gat um í ræðu minni áðan. Þess vegna verður að gera mjög ríkar kröfur til þess (Forseti hringir.) hvernig menn bera sig að og í öllu tilliti (Forseti hringir.) sem lýtur að framkvæmd þessara laga.