148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég biðst velvirðingar á að vera frammi á gangi þegar mér var gefið orðið, hvað ég þakka fyrir liðlegheit að hleypa mér að í þessari umræðu.

Ég er hingað kominn til þess að hafa nokkur orð um það sem snýr að Alþingi í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023. Það geri ég vegna þess að af og til hefur verið í ræðum manna og umræðum rætt um stöðu Alþingis, sem eðlilegt er, áform í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar um að hlúa að Alþingi og efla starfsemi þess, hverju ég sem forseti fagna að sjálfsögðu, og það er eðlilegt að menn vilji fá upplýsingar um hvernig þetta lýtur við frá sjónarhóli mínum sem forseta og skrifstofu Alþingis sem að sjálfsögðu vinnur með það að útfæra hluti af þessu tagi. Ég ætla að fara yfir þetta. Það eru aðallega fjórir þættir sem ég mun víkja að.

Í fyrsta lagi er það þannig að hækkun á framlagi til þingflokka vegna rekstrar þeirra sjálfra og kaupa á sérfræðiþjónustu er innbyggð í þessa áætlun og reyndar þegar farin af stað. Það mál er einfalt. Endamarkið sem næst á næsta ári er að fjárveitingar til þessa liðar verði komnar í það sama að raungildi og þær voru áður en niðurskurður á þeim hófst árið 2009. Sú fjárhæð var í fjárlögum ársins 2017 51.950 þús. kr. Hún var hækkuð um 20 milljónir í fjárlögum yfirstandandi árs, þannig að til ráðstöfunar handa þingflokkum er 71.900 þús. kr. í ár. Þessi fjárhæð tekur svo í viðbót hækkun um 35 millj. kr. á næsta ári. Sem sagt, þá verður hækkunin frá 2017 orðin 55 milljónir og fjárhæðin komin úr 51,9 í 106,9. Auðvitað gjörbreytir þetta afkomu þingflokkanna og möguleikum þeirra til starfsmannahalds og kaupa á sérfræðiþjónustu. Ef þetta er ekki liður í að efla Alþingi að þessu leyti þá er ég á villigötum.

Ég tel því hvað þennan lið varðar séum við að fá algerlega fullnægjandi og mjög góða meðhöndlun í áætluninni, og reyndar þegar að hluta til í fjárlögum yfirstandandi árs. Enda hófst ég strax sem nýkjörinn forseti handa um það að inna eftir efndum á því sem gefið var svo fallega til kynna í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna og vildi sjá þess stað strax í fjárlögum þessa árs, sem og varð.

Í öðru lagi nefni ég liðinn um hækkun á framlagi til að styrkja „löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis“ með stuðningi við nefndastarf. Hér er vísað beint í orðalag samstarfsyfirlýsingar. Hvar erum við þá stödd með það? Það er þannig að í fyrsta skipti í ein tíu ár er loksins hægt að ráða í ný störf á nefndasvið Alþingis og á skrifstofu Alþingis. Það er fjármagnað að hálfu á þessu ári, þ.e. þrjár nýjar stöður eru fjármagnaðar að hálfu í fjárlögum þessa árs, sem þýðir að frá og með upp úr miðju ári getum við ráðið fólk til þeirra starfa. Það hefur aðeins dregist að auglýsa stöðurnar, en það verður gert á næstunni. Ástæðan fyrir því að það hefur aðeins tafist er sú að dálítið hefur verið um mannabreytingar í fastastarfsliði Alþingis og hefur verið í forgangi að fylla í þau skörð, svo sem eins og með því að ráða nýjan fjármálastjóra, hvað nú hefur verið gert í stað okkar ágæta Karls M. Kristjánssonar.

Þetta verður að fullu fjármagnað á næsta ári, þrjár stöður sérfræðinga. Til þess fáum við 45 millj. kr. samkvæmt áætluninni strax á árinu 2019. Gert er ráð fyrir, svo menn viti af því líka af því að lýst er eftir upplýsingum um þessi mál, að þessi þrjú stöðugildi verði nýtt þannig að tveir nýir sérfræðingar verði ráðnir inn á nefndasvið Alþingis og viðbótarlögfræðingur á lagaskrifstofuna, eða til aðstoðar yfirlögfræðingi Alþingis, sem er orðinn mjög hlaðinn verkefnum sem eini starfsmaðurinn á því sviði.

Þó það sé kannski ekki endanlega í gadda slegið hefur verið gert ráð fyrir að önnur staðan yrði staða hagfræðings, eða þjóðhagfræðings, sem myndi fyrst og fremst starfa á bak við og vinna með fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Hin staðan yrði staða væntanlega lögfræðings sem myndi aðallega aðstoða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og eftir atvikum og að einhverju leyti aðrar nefndir sem fást við skyld viðfangsefni eins og allsherjar- og menntamálanefnd. Síðan myndi annar lögfræðingur bætast við, en hann myndi starfa með aðallögfræðingi þingsins.

Þessu til viðbótar eru í plönunum tvær stöður á árunum 2021 og 2022 þannig að síðari hluta áætlunartímans bættust við aðrar tvær stöður og væntanlega einnig á nefndasvið. Þá væru þetta orðnir fjórir sérfræðingar í viðbót sem væru að vinna á bak við átta þingnefndir. Hugsunin er sú sem nefndasviðið hefur verið að útfæra að þetta verði að meiri teymsvinnu, meira eins og teymissérfræðingar á bak við fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd þeim til stuðnings og aðstoðar og sömuleiðis kannski nefnda eins og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, allsherjar- og menntamálanefndar. Nýju stöðurnar tvær gætu þá bæst á bak við atvinnuveganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, eða velferðarnefnd o.s.frv. Þá held ég að við gætum bærilega við unað ef þessi plön, að efla nefndasviðið sérstaklega með þessum hætti, ganga eftir.

Í þriðja lagi er stefnt að því að hefjast handa á nýjan leik eftir tíu ára hlé að efla aðstoð við þingmenn, þ.e. ráða þeim aðstoðarmenn. Þetta hefur verið í bígerð að undanförnu. Þessa sá stað að nokkru leyti í fjármálaáætlun síðasta árs. Það verður að vísu væntanlega gert með þeim hætti að ráðningarnar fara fram í gegnum þingflokkana og verða á forræði þeirra. Við bindum vonir við að geta hafist handa undir lok þessa árs og af fullum krafti á næsta ári. Það mun taka tvö til þrjú ár að koma því prógrammi á koppinn. Það verður að segja eins og er að þar er þáttur sem á eftir að ganga betur frá í samskiptum Alþingis og fjármálaráðuneytisins. Átt hafa sér stað samtöl og póstar gengið á milli um þau mál, en niðurstaðan er sú að þetta verði að festa betur í sessi í endurskoðaðri fjármálaáætlun næsta árs. En það er sameiginlegur skilningur manna um að þessi áform standa og þau verða færð inn í endanlegri mynd sinni í fjármálaáætlun næsta árs.

Umfangið á því er áætlað að á árinu 2021 verði tæpar 190 millj. kr. til ráðstöfunar í það. Það er umfangið á þeirri áætlun sem unnið er með og kæmi inn í áföngum á þeim árum. Þetta var þriðji þátturinn.

Til samans er þetta allt býsna gott, finnst mér, og löngu tímabært auðvitað að við komumst eitthvað áleiðis í þá átt að þingmenn fái meiri persónulega aðstoð, þó svo að hún verði ekki á sama grunni og hún er víða í þjóðþingunum umhverfis okkur þar sem hver og einn þingmaður hefur einn og jafnvel tvo aðstoðarmenn sem hann ræður algjörlega yfir og stjórnar sjálfur. Það er viðameira en svo að við komumst alla leið þangað í bili, enda höfum við svo sem áður orðið að sníða okkur stakk eftir vexti sem lítið þjóðþing og lítið land, en við erum þó alla vega að leggja af stað aftur í þá átt að auka persónulega eða þingflokksbundna aðstoð við þingmenn í störfum sínum.

Þá er eftir fjórði þátturinn sem ég ætla að nefna, ein lítil smábygging fyrir Alþingi upp á 4,4 milljarða kr., sem er í þessari áætlun. Ég er hvergi banginn að tala fyrir því að þetta séu stórir áfangar í að styrkja og stórbæta starfsaðstæður á þingi. Þá er ég ekki bara að tala um fjárhæðirnar, heldur t.d. þá framtíðarsýn að öll starfsemi nefndasviðs, allar skrifstofur þingmanna, öll þjónusta við þá, verði í nútímalegu, sérhönnuðu húsnæði utan um þarfir þeirra og innangengt úr því í þinghúsið, í staðinn fyrir að vera hér úti um dal og hól í leiguhjöllum eins og verið hefur með alls konar óþægindum og vandræðum, m.a. og ekki síst þegar breytileg stærð þingflokka og nýir þingflokkar koma við sögu sem oft hafa skapað erfiðleika. Það er í mínum huga auðvitað alveg gríðarstórt atriði í að bæta starfsaðstæður hér og efla Alþingi, að sómasamlega sé að því búið líka hvað varðar húsakost.

Þessa fjóra þætti læt ég nægja þó að margt fleira mætti nefna. Lesa má að hluta til um það í áætluninni. Sumt af því er þegar í framkvæmd, eins og það að bæta gæði og öryggi upplýsingakerfa Alþingis. Til þess hafa verið veittar fjárveitingar. Þær eru að hluta til geymdar, en nú loksins eru þær aðgerðir í gangi að bæta gæði og öryggi upplýsingakerfanna. Núna er viðamikil vinna yfirstandandi og er fram undan í þeim efnum.

Ég vil aðeins nefna undirstofnanir Alþingis, því að að sjálfsögðu þurfum við líka að gæta að hagsmunum þeirra, það er skylda okkar, þær starfa í okkar skjóli; umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun og eftir atvikum ef til slíks kemur rannsóknarnefndir á vegum Alþingis, að því öllu þarf líka að vera vel búið. Ég tel að eftir atvikum sé það gert í áætluninni. Ætlunin er að efla, svo dæmi sé tekið, umboðsmann, bæði hvað varðar frumkvæðisathuganir og að tryggja að ný verkefni eins og OPCAT-eftirlitið verði að fullu fjármagnað. Það inni í þessum plönum.

Varðandi Ríkisendurskoðun má nefna svipaða hluti. Þar er ætlunin að styrkja stofnunina, t.d. til þess að hún geti sinnt vel sínu mikilvæga hlutverki hvað varðar reikningsskil og samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Þetta skiptir líka máli í tengslum við ný lög um opinber fjármál og að hún geti sinnt sínum hefðbundnu verkefnum og skyldum, að hafa eftirlit með fjárhagslegri starfsemi ríkisaðila, eftirlit með skilum og yfirferð ársreikninga o.s.frv. Ég er því einnig ágætlega sáttur við hlut þeirra í þessum efnum. Það er þó vissulega ekki stórir póstar þar á ferð í samanburði við það sem Alþingi sjálft er að fá sér til stuðnings í þessum efnum.

Auðvitað er það líka svo, herra forseti, að það verður aldrei róið fyrir hverja vík í áætlun af þessu tagi. Það er alltaf einhver óvissa um hverjar verða þarfir stofnunar eins og Alþingis á komandi árum. Það er til að mynda erfitt að áætla útgjöldin nákvæmlega ár frá ári fyrir fram sem tengjast þátttöku Alþingis í alþjóðlegu samstarfi. Það er ekki alltaf fyrirsjáanlegt með löngum fyrirvara hve miklar skyldur Ísland tekur á sig til dæmis sem gestgjafi eða gistiríki fyrir ráðstefnur og fundi. Stundum getur það kostað þó nokkra fjármuni bara að gerast gestgjafi stórra funda á vegum Norðurlandaráðs, Evrópuráðsþingsins eða einhverra slíkra aðila. Þau árin sem hér eru haldin Norðurlandaráðsþing þarf talsverða fjármuni til að standa straum af því o.s.frv. Það er náttúrlega í föstum farvegi og á ekki að þurfa að vera neitt áhyggjuefni.

Ég vil síðan nefna að lokum þann ánægjulega hlut að nú er kominn á samstarfssamningur milli Alþingis, forsætisráðuneytis og Samtaka kvenleiðtoga í stjórnmálum. Ísland verður gestgjafi þessarar stóru árlegu ráðstefnu þeirra samtaka á hverju ári næstu fimm árin sem hér verður haldin í lok nóvember og fjármunir til þess eru og verða tryggðir, reyndar í samstarfi við einkaaðila líka.

Niðurstaðan er þessi, herra forseti, og það var erindi mitt hingað að fara yfir þessi mál, og það er líka ágætt að þetta sé skráð í þingtíðindin. Svona lítum við á þetta af hálfu Alþingis og skrifstofu Alþingis. Þetta eru þau plön og þau áform sem við teljum að við höfum annars vegar og í flestum tilvikum einfaldlega fengið hér á prent og eru í sumum tilvikum í vinnslu, sérstaklega hvað varðar aðstoðarmannakerfið, og erum fullrar trúar á það að það gangi allt saman eftir. Þá held ég að við getum sæmilega við þann þátt málsins unað hvað varðar það að virkilega er verið að skila innstæðum fyrir því að vilji er til þess að búa betur að Alþingi og styrkja starfsemi þess. Svo er mjög margt annað í höndum Alþingis sjálfs sem ekki verður leyst með peningum og snýr að starfsemi þess og virðingu.