148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt að við erum ekki að tala hér um að við verðum batterí á stærð við fjármálaráðuneytið sem vinnur á bak við fjárlaganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd. Við erum ekki heldur að tala um að stofna nýja þjóðhagsstofnun, fullgilda, þó að oft hafi verið rætt um það að kannski ætti einmitt að starfa í skjóli Alþingis sjálfstæð matsstofnun í anda þess sem þar var á ferð á sínum tíma.

Við erum tvímælalaust að stíga skref í rétta átt. Þetta er tvímælalaust til bóta. Jafnvel einn öflugur maður, einn öflugur sérfræðingur, getur breytt stöðunni ótrúlega mikið. Þar get ég nefnt sem dæmi aðallögfræðing Alþingis. Hann vinnur ótrúlega mikla vinnu fyrir þingið, fyrir þingnefndir, býr til minnisblöð og metur hluti og veitir lögfræðilega ráðgjöf sem er ómetanleg. En auðvitað má ekki drekkja honum þannig í störfum að hann brenni út. Þess vegna er meðal annars verið að undirbúa ráðningu á starfsmanni honum til aðstoðar. Ég tel það tvímælalaust vera skref í rétta átt og til bóta.

Ég ætla að leyfa mér að grínast aðeins við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, og segja: Mér finnst aðeins vanta gleðina í hann yfir þessu. Mér finnst hv. þingmaður vera óþarflega niðurlútur eins og þetta sé nánast ónýtt og ekkert gagn að þessu. Ég hvet hv. þingmann til þess að lyfta nú brúnum og vera kátan með þetta. Veruleikinn er sá (Gripið fram í: Heyr, heyr.) að hér er verið að stíga stór skref í því að efla Alþingi.