148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar umræður hér. Ég er hjartanlega sammála. Það var auðvitað ekki eitt af því skemmtilegasta að hafa líka þurft að þrengja nokkuð að Alþingi eftir hrun. Reynt var að gera það þannig að það kæmi sem minnst við kjarnastarfsemi þess. Dregið var talsvert úr þátttöku í alþjóðastarfsemi og fækkað ferðum og annað í þeim dúr. Reynt var að gera það á þann hátt að við gætum haldið uppi lágmarksstarfsemi á öllum sviðum, en fyrir aðeins minni peninga. Vonandi er mjög langt í það, ef það gerist nokkurn tímann, að við þurfum að standa í slíku aftur. Þá verð ég vonandi í öllu falli hættur í pólitík. Ég fékk nóg af einni umferð.

Ég fyrirgef hv. þingmanni algjörlega að leggja fyrir mig smágildru. Það er mitt að varast hana og falla ekki í gryfjuna, það er bara próf. En mitt erindi hingað var fyrst og fremst að fara yfir hvernig þetta snýr að Alþingi. Ég ætla líka að heita því að við munum reyna að varðveita góða samstöðu um það hvernig við spilum úr þessum nýju möguleikum. Það verður að sjálfsögðu rætt í forsætisnefnd og með formönnum þingflokka, það hefur svo sem aðeins verið farið yfir það, þegar til þess kemur að við förum að hefjast frekar handa við að auglýsa stöður og annað því um líkt, hvernig það verður gert nákvæmlega. Vonandi getum við þá öll staðið mjög vel saman þverpólitískt um þá hluti.