148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Núna þegar sól er hátt á lofti og við sjáum hvítar stúdentshúfur á ferð um bæinn eru próf eða próflok mörgum ofarlega í huga. Það á ágætlega við hér því að fjármálastefna hverrar ríkisstjórnar er sennilega helsta prófraun á efnahagsstefnu viðkomandi ríkisstjórnar og það verður því miður að segja að ríkisstjórnin hefur fallið á því prófi og það nokkuð kirfilega að mínu viti. Ef við höldum áfram með þá prófsamlíkingu held ég að ríkisstjórnin þurfi að taka þetta upp aftur, jafnvel öll fjögur árin ef við horfum til stúdentsins.

Af hverju segi ég það? Af því að þegar við horfum til þeirra mistaka sem gerð hafa verið í hagstjórn fyrri ára hafa þau gjarnan verið nákvæmlega þau sem hér er verið að endurtaka, þ.e. að ríkisfjármálin séu kynnt akkúrat í hápunkti hagsveiflunnar. Þær mismunandi afsakanir sem borið er við hverju sinni geta verið langvarandi uppsöfnuð þörf, hversu lengi sem viðkomandi hagvaxtarskeið hefur varað, brýn nauðsyn fjárfestinga í innviðum, þörf fyrir uppbyggingu heilbrigðiskerfis o.s.frv. Allt eru þetta brýn og þörf verkefni.

Það er einhvern veginn svo í íslenskri hagstjórn að þegar við horfum til hagstjórnarsögu fullveldistímabils okkar eru þetta endurtekin mistök, aftur og aftur og aftur, og alltaf eins og aldrei ætlum við að læra. Í nýútgefinni skýrslu starfshóps um endurbætta peningastefnu kemur þetta ágætlega fram. Þar er í langri yfirferð farið ágætlega yfir harmsögu hagstjórnar okkar á undanförnum 100 árum og þann lærdóm sem draga má af henni. Þetta er mjög áhugaverð en að mörgu leyti mjög hryggileg lesning.

Mér þykir áhugavert, með leyfi forseta, að fá að drepa niður í þeirri skýrslu þar sem segir m.a. um tíu lærdóma úr íslenskri peningasögu:

„Á þessum 100 árum sem Íslendingar hafa haft fulla sjálfstjórn í peningamálum hefur margt verið reynt. Landsmenn hafa verið í myntbandalagi, á gullfæti, á fastgengi með höftum og fastgengissamstarfi innan Bretton-Woods kerfisins. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með peningamagnsmarkmið, raungengismarkmið eða skriðgengi, og fastgengi með skuggaaðild að evrópska myntkerfinu (EMS). Þá hafa landsmenn nú einnig reynt verðbólgumarkmið með frjálsu fljótandi gengi og nú frá árinu 2009 sveigjanlegt verðbólgumarkmið með stuðningi af fjármagnshöftum.“

Og enn er borin á borð tillaga um nýja útfærslu af peningamálum.

Hvert er vandamálið? Nefndin kemst að þeirri meginniðurstöðu að það að fylgja leikreglunum skipti meira máli en hvaða leikur sé valinn. Þar væri ágætt ef fjallað væri í löngu máli um þann aga sem peningastjórn krefst í öllum lýðræðisríkjum.

Með leyfi forseta vitna ég aftur í skýrsluna:

„Hins vegar hafa hin íslensku reglufrávik verið mun meiri en þekkist annars staðar — það er eins og þjóðin hafi í raun ekki einu sinni reynt að fylgja þeim reglum sem peningastefnan á hverjum tíma hefur krafist. Það hefur því miður komið illa niður á henni sjálfri.“

Annar meginlærdómurinn sem nefndin dregur af þessari 100 ára harmsögu: Hagstjórnin þarf pólitískan stuðning.

Aftur, með leyfi forseta:

„Önnur pólitísk markmið — atvinnumál, velferðarmál, byggðastefna eða einfaldlega óskin um að vinna næstu kosningar — hafa alltaf haft forgang yfir það verkefni að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Þetta birtist með því að Seðlabanki landsins hafði ekki pólitískt umboð til beitingar stýrivaxta — fyrr en við byrjun 21. aldar. Þetta hefur einnig birst með því að ríkisfjármálum hefur ekki verið beitt til þess að viðhalda stöðugleika — svo sem með því að halda aftur af eyðslu í góðæri.“

Það er einmitt sú staða sem við stöndum frammi fyrir núna. Og hvað felst í fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem verðskuldar svo lága einkunn? Það er hinn eitraði kokteill stóraukinna ríkisútgjalda í hápunkti hagsveiflunnar og áforma um skattalækkanir. Það er í raun ekki hægt að finna mikið hættulegri blöndu í hagstjórn en þá blöndu. Hvað þýðir það á mannamáli? Þetta er ekki skemmtilegasta umræðan. Þetta er álíka sjónvarpsefni og að horfa á vatn sjóða stundum. En þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Það er sjálfsagt fátt í ákvörðunum ríkisstjórna eða meðhöndlun á Alþingi sem skiptir meira máli um hag þjóðar en einmitt hvernig við beitum eða beitum ekki ríkisfjármálum til að styðja við efnahagslegan stöðugleika. Gjaldið sem við höfum greitt fyrir þann óstöðugleika er gríðarlega óstöðugt gengi með reglulegum boðaföllum í genginu og ærnum tilkostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og miklu hærra vaxtastig en nágrannaþjóðir okkar hafa átt að venjast. Raunvaxtastig er hér a.m.k. 3% hærra að jafnaði yfir áratugaskeið en nágrannar okkar t.d. annars staðar á Norðurlöndunum eða öðrum Vesturlöndum hafa átt að venjast.

Þetta er kostnaðurinn af agaleysinu. Þetta er ástæðan fyrir því að það skiptir svona miklu máli. Þetta er sá kostnaður sem bitnar yfirleitt hvað þyngst á tekjulægstu heimilunum í landinu. Það eru þau heimili sem geta síst tekist á við skakkaföllin sem fylgja efnahagssveiflum, það eru þau heimili sem taka yfirleitt á sig þyngstu byrðarnar þegar kemur að húsnæðiskostnaði, hækkandi leiguverði, eins og við sáum í hruninu. Þetta var hópurinn sem tapaði heimilum sínum, sem réði ekki lengur við skuldir sínar út af m.a., og ekki eingöngu en að stórum hluta, mjög óagaðri hagstjórn.

Á það hefur ítrekað verið bent, ekki aðeins í ágætri skýrslu peningastefnunefndarinnar. Um það hefur náttúrlega ítrekað verið fjallað í gegnum tíðina og er ein meginástæða þess að við ákváðum að setja lög um opinber fjármál, til þess að reyna að stemma stigu við þróuninni. Ég spyr enn og aftur: Hvaða lærdóm höfum við dregið af þessu?

Það má líka nefna að í grein sem Jónas H. Haralz skrifaði í Sögu 1. janúar 2009, þar sem hann gerði upp dóm sinn, hvaða lærdóm mætti draga af hagþróun og hagstjórn á Íslandi á 20. öld, segir hann eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Tvö atriði verða mér efst í huga þegar ég velti fyrir mér þessari spurningu, atriði sem raunar eru nátengd. Annað þeirra er hversu slitrótt og erfitt samband okkar við umheiminn hefur verið.“ — Það var ekkert launungarmál að Jónas komst að þeirri niðurstöðu að við ættum að vera aðilar að Evrópusambandinu og evrunni. — „Hitt er hversu mikla áherslu við höfum lagt á öflun framleiðslutækja og hvers konar framkvæmdir en látið undir höfuð leggjast að búa efnahagslífinu það almenna umhverfi góðra stjórnarhátta sem er forsenda traustrar hagþróunar.“

Þetta þýðir í einföldu máli: Nú tölum við um á þessum tímapunkti í hagsveiflunni að aðeins sé byrjað að gefa eftir og þess vegna megi gefa í í ríkisfjármálunum. Á sama tíma segir Seðlabankinn okkur: Þið eruð að draga úr aðild ríkisfjármálanna, við þurfum að hafa vexti hærri en ella. Hvað þýða hærri vextir en ella? Það þýðir að fyrirtækin eiga erfiðara með að takast á við þá kólnun sem á sér stað í hagkerfinu. Þau þurfa að bíða lengur eftir því súrefni sem þau þurfa á að halda og hið sama á við um heimilin. Það þýðir líka að gengið verður sterkara en ella út af háu vaxtastigi, sem er það sem grefur undan öllum útflutningsatvinnuveg og samkeppnisatvinnugreinum í landinu.

Þetta er ekkert nýtt. Við endurtökum slíkt hagstjórnarmistök á u.þ.b. sjö til tíu ára fresti. Við höfum gert það, eins og hin ágæta yfirferð peningastefnunefndarinnar sýnir, reglulega á sjö til tíu ára fresti undangengna öld, allt fullveldistímabil okkar. Á sama tíma og nágrannaþjóðir okkar drógu lærdóm af því fyrir áratugum síðan höldum við áfram að berja höfðinu við steininn. Við höldum áfram að telja sjálfum okkur trú um það að hér gildi önnur efnahagslögmál en í öllum öðrum löndum í kringum okkur.

Víkjum aftur að þeim baneitraða kokteil sem stefna ríkisstjórnarinnar er. Þar er ekki lagður neinn endanlegur dómur á hvaða stig samneyslu sé rétt. Það er annað viðfangsefni. Við getum alveg stýrt við lágt eða hátt stig samneyslu á þessum tímapunkti í hagsveiflunni, staðreyndin er einfaldlega að fjármagna þarf það stig samneyslunnar sem á að stýra eftir. Það gerir ríkisstjórnin ekki. Það leiðir hugann að öðrum hagstjórnarmistökum sem fyrri ríkisstjórnir hafa gjarnan gert: Íslenskir stjórnmálamenn eyða þeim peningum sem þeir koma höndum yfir. Það er hið einfalda viðmið. Öllu því fé sem finnst laust er eytt af því að það vinnur kosningar. Svo einfalt er það. Það er aldrei sett í forgang að sýna ráðdeild, að sýna ábyrgð í hagstjórninni. Við gerum þetta enn og aftur.

Við þekkjum það mætavel að á þessum tímapunkti hagsveiflunnar, þegar við höfum snúið frá því að hagvöxtur sé drifinn áfram af útflutningsgreinum yfir í það að hagvöxtur sé drifinn áfram af einkaneyslu og opinberum útgjöldum, hagnast ríkissjóður mjög vel um skeið. Það má segja að rigni inn í ríkiskassann á þeim tímapunkti af því að við nýtum okkur sterka stöðu vegna mikillar hækkunar á ráðstöfunartekjum okkar. Við endurnýjum bílana okkar, við endurnýjum rafmagnstækin okkar, við ferðumst dálítið myndarlega, við gerum vel við okkur í mat og drykk og svo mætti áfram telja. Allt er þetta skattlagt ágætlega af ríkissjóði og skilar ríkissjóði miklum tekjum.

Við vitum hins vegar líka að það kemur að skuldadögum í því eins og öðru og þá dragast tekjur ríkissjóðs verulega saman. Þegar við ætlum að stilla af þjónustustig heilbrigðiskerfisins eða menntakerfisins í hápunkti hagsveiflunnar með rekstur ríkissjóðs nánast á núlli og jafnvel lækka skatta ofan í það allt saman vitum við að við munum ekki hafa efni á því að veita sömu þjónustu af tveimur, þremur eða fjórum árum liðnum þegar hægir á. Þá mun enn og aftur þurfa að gera sömu vitleysu, getum við sagt, og við höfum alltaf þurft að gera, að velja á milli þess í niðursveiflunni að draga saman útgjöld ríkissjóðs eða hækka skatta, eða eins og í síðustu krísu, gera hvort tveggja til þess að ná jafnvægi á fjárhag ríkissjóðs að nýju.

Í þessari fjármálastefnu er ekki að sjá að neinn lærdómur sé dreginn af fyrri reynslu. Þetta er orðinn 100 ára skóli. Við ættum fjandakornið að hafa lært eitthvað, en við höfum ekki gert það. Það þykja mér gríðarleg vonbrigði að horfa upp á. Það er áhugavert að bera fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar saman við fjármálaáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem sat hér á síðasta ári og var gagnrýnd fyrir áætlun sína, sem þótti þó vera hlutlaus gagnvart hagsveiflunni að mati Seðlabanka. Hún hjálpaði kannski ekki mikið til við að halda aftur af þenslu en hún var hlutlaus, hún örvaði ekki hagkerfið. Þá var gagnrýnt harðlega að ekki væri eytt nógu miklu. Hér er búið að bæta eins og um munar úr því en á sama tíma er líka ákveðið að lækka skatta, ofan í það allt saman. Það er ekki grundvöllur að efnahagslegum stöðugleika. Það er ekki grundvöllur að mjúkri lendingu í hagkerfinu.

Að öðru í tengslum við þetta, sem er efnahagsleg undirstaða fjármálaáætlunar. Gert er ráð fyrir gríðarlegri útgjaldaaukningu á þessu fimm ára tímabili og skattalækkunum, eins og áður hefur verið nefnt. Það sem ég held að hafi oftast heyrst í umfjöllun fjárlaganefndar um forsendur fjármálaáætlunar og megineinkenni hennar eru aðvörunarorð fjölmargra aðila um að allt of bjartsýnar hagspár lægju til grundvallar fjármálaáætluninni. Við slíkar kringumstæður mætti segja: Í fyrsta lagi hefur verið kallað eftir, fjármálaráð hefur m.a. gert það, hagsveifluleiðréttri nálgun á afkomu ríkissjóðs, sem ekki hefur verið brugðist við og augljóst að það þykir ekki ákjósanlegt að mörgu leyti, enda er alltaf mjög þægilegt að hafa þetta góðæri til að eyða svolítið vel.

Í öðru lagi vantar að dregnar séu upp einhverjar sviðsmyndir. Hvað ef hagvöxtur verður minni á þessu ári eða því næsta en við gerum ráð fyrir? Við gerum í efnahagslegum forsendum fjármálaáætlunar ráð fyrir langlengsta samfellda hagvaxtarskeiði sem Ísland hefur gengið í gegnum, aftur á fyrrnefndri 100 ára sögu fullveldisins. Þó svo að það eitt og sér útiloki ekki að slíkt geti gerst er það alla vega veðmál sem er ekki mjög skynsamlegt að leggja allt undir í að gangi eftir, sem þýðir að það krefst aukinnar varfærni, aukinnar ráðdeildar og líka þess að horft sé til þess hvaða áhrif það hefur á afkomu ríkissjóðs gangi þau áform ekki eftir.

Mig langar að vitna í nokkur dæmi. Hér er t.d. nýleg frétt sem birtist 3. júní og þar er haft eftir Yngva Harðarsyni, framkvæmdastjóra Analytica, sem hefur sérhæft sig í efnahagsgreiningum um alllangt skeið, með leyfi forseta:

„Analytica telur yfir 90% líkur á því að raungengi krónunnar muni lækka töluvert á næstu tveimur árum og krónan gefa eftir.“

Yngvi segir:

„Raungengið hefur sjaldan verið hærra og þegar það hefur farið svona hátt hefur það haft sögulega tilhneigingu til að lækka hratt aftur. Í gegnum hagsveiflur síðastliðinna 60 ára eða svo, eða síðan 1960, hefur raungengið farið fimm sinnum í þær hæðir sem það er í núna. Í sögulegu samhengi þýðir það að um 90% líkur eru á að raungengið verði lægra til lengdar.“

Í efnahagsforsendum fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir því að raungengið styrkist í gegnum öll árin. Þegar við horfum á það sem er að gerast í hagkerfunum í kringum okkur eru öll teikn á lofti um að raungengið sé farið að grafa verulega undan efnahagslegum stöðugleika til lengdar. Hver einasta útflutningsatvinnugrein kvartar undan því, hvort sem horft er til sjávarútvegs, ferðaþjónustu, tækni- og sprotafyrirtækja eða annarra iðnfyrirtækja. Samkeppnisgreinarnar kvarta líka undan því. Það sem meira er, byrjað er að segja upp fólki og leggja niður starfsemi eða draga úr henni út af háu raungengi. Það segir okkur það eitt að þetta gengur ekki til lengdar.

Ferðaþjónustan hefur sennilega sýnt af sér talsvert meira þol gagnvart raungenginu en maður hefði þorað að vona en við sjáum augljós teikn á lofti núna um að þrátt fyrir að hér sé enn fjölgun ferðamanna, þótt hægt hafi verulega á henni, hefur á sama tíma dregið úr nýtingu gistirýma. Sá meðaltími sem ferðamenn dvelja hérna styttist og sá radíus sem þeir ferðast innan út frá suðvesturhorninu er minni með tilheyrandi afleiðingum fyrir efnahagslífið á landsbyggðinni. Það hefur einmitt verið hvað jákvæðasti fylgifiskur vaxtarins í ferðaþjónustunnar að ferðaþjónustan hefur skilað hagvexti um allt land, uppgangi í atvinnustarfsemi úti um allt land.

Það er alveg augljóst þegar við horfum á ríkisfjármálin með hliðsjón af hagstjórn að við slíkar kringumstæður verður ríkisstjórn að leggja alla áherslu á að stuðla að þeirri mjúku lendingu sem allir óska að verði.

Það er ekki aðeins einn aðili, Analytica, sem varar við þessu. Við því er varað í umsögnum Alþýðusambandsins, í umsögn Samtaka iðnaðarins, í umsögn Samtaka atvinnulífsins, í umsögn Viðskiptaráðs. Í raun og veru er sama stefið í þeim öllum: Það er algjörlega óraunhæft að ætla að hagvöxtur verði svo sterkur sem hér er spáð í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í í raungenginu. Það hefur aldrei gerst áður að okkur hafi tekist að viðhalda efnahagslegu jafnvægi á þeim punkti í raungengi sem við erum í. Ef við horfum á myndirnar hefur undantekningarlaust orðið mjög skörp leiðrétting á því sama raungengi akkúrat á þeim tímapunkti eða í þeim hæðum sem við erum í núna. Hvort það gerist í ár eða á næsta ári er ómögulegt að segja til um, en enn og aftur skal horft til varnaðarorða Yngva Harðarsonar: Það er 90% líkur á verulegri leiðréttingu.

Þetta þýðir að forsendur opinberra fjármála umturnast við slíka breytingu. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjármálaáætluninni.

Ég held að alveg ljóst sé að ríkisstjórnin mun þurfa að endurskoða þessa fjármálaáætlun frá grunni innan ekki langs tíma. Það mun ekki verða svigrúm í opinberum fjármálum til þeirra útgjaldaaukningar sem gert er ráð fyrir án þess að gripið sé til verulegra skattahækkana til að fjármagna þau áform.

Ég veit ekki hvort þessi ríkisstjórn lifir af slíkar breytingar þegar hér er horft númer eitt, tvö og þrjú út frá pólitískum hagsmunum þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa, að miðla mála milli flokka sem vilja lækka skatta og flokka sem vilja auka verulega samneyslustigið í landinu með þeim eitraða kokteil að ætla að gera hvort tveggja í senn, sem mun aldrei ganga upp.

Það eru mörg fleiri atriði sem vert er að staldra við og hafa af nokkrar áhyggjur. Ef við horfum fram hjá þeim augljósa og risavaxna veikleika sem efnahagslegar forsendur og hlutverk ríkisfjármálanna í hagstjórninni er er líka annað sem er mjög ámælisvert, myndi ég segja, í fjármálaáætlun. Til að gæta fullrar sanngirni mátti líka færa þá gagnrýni á síðustu ríkisstjórn og þá gagnrýni er að finna í sameiginlegum athugasemdum fjárlaganefndar. Það er algjör skortur á skýrum og greinilegum árangursmælikvörðum og skýrum markmiðum. Þetta er eitthvað sem ég held að við verðum að taka höndum saman um að þróa. Það er ekki markmið út af fyrir sig, alla vega ekki ásættanlegt markmið í stefnumörkun, að ætla einfaldlega að auka útgjöld. Við horfum t.d. til heilbrigðiskerfisins þar sem markmiðið er skýrt: Stórsókn í heilbrigðiskerfinu, stóraukin útgjöld í heilbrigðiskerfinu. En hvað ætlum við að gera við þá fjármuni? Hvaða árangri ætlum við að ná? Hvernig mælum við hann? Hvernig göngum við úr skugga um að við séum með betra heilbrigðiskerfi á eftir en ekki bara dýrara heilbrigðiskerfi?

Það er umhugsunarefni, sérstaklega þegar við horfum á þá stefnumörkun sem virðist vera hjá hæstv. heilbrigðisráðherra í dag sem hefur ráðist til atlögu við einkarekinn hluta heilbrigðiskerfisins. Það verður ekki annað séð en að þrengja eigi að þeim hluta kerfisins með öllum ráðum án þess að við vitum nokkuð um það hvort það kerfi sé skilvirkara eða óskilvirkara en hið opinbera. Það eru allt of litlar upplýsingar um hvaða árangri við erum að ná í rekstri heilbrigðiskerfisins, hvaða árangri heilbrigðiskerfið skilar okkur í því markmiði sem hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra, að það þjóni íbúum þessa lands sem best. Við höfum enga mælikvarða um það í fjármálaáætlun.

Horfum á þá veikleika sem hér er bent á, sem m.a. Landspítalinn hefur tilgreint. Ef Landspítalinn ætti að ná þeim markmiðum sem þó eru tilgreind í fjármálaáætlun hvað varðar starfssvið þeirra þyrfti 50–80 milljarða til viðbótar í fjármálaáætlun. Ég ætla ekki að leggja mat á hvort það sé rétt og sanngjarnt mat eða ekki, en það sýnir að verulega vantar upp á þann mælanleika að skýrt sé hvaða meginmarkmiðum eigi að ná fram, hvað þau kosti og hvernig eigi að ná þeim í gegn.

Það má nefna fleiri dæmi. Það er t.d. nefnt varðandi örorkulífeyriskerfið að við höfum engan veginn nægjanlegt fjármagn til að ráðast í þá endurskoðun á lífeyriskerfi öryrkja sem boðuð er. Ef ég man rétt eru ætlaðir 4 milljarðar í það verkefni. Það er ágætt að hafa í huga í því samhengi að við stokkuðum upp lífeyriskerfi eldri borgara fyrir ekki svo löngu síðan, breytingar sem samþykktar voru á þinginu árið 2016. Frá þeim tíma hafa útgjöld okkar til ellilífeyris aukist um liðlega 30 milljarða, að ég hygg, úr 50 milljörðum í um 80 milljarða. Ég efa að við getum náð fram sambærilegri endurskoðun á lífeyriskerfi öryrkja fyrir 4 milljarða. Ég held að það sé talsvert langur vegur þar frá.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir t.d. fjárlaganefnd í umfjöllun um fjármálaáætlun að fá skýrari mynd af því þegar við horfum fram á veginn. Það er athyglisvert þegar við skoðum vinnuna sem fjárlaganefnd hefur lagt í í yfirferð yfir fjármálaáætlun að við erum engu að síður engu að breyta. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur ekki fram neinar tillögur til breytinga, engar tillögur til úrbóta á þeim veikleikum sem flaggað hefur verið, engar tillögur til að meta t.d. þá tekjuveikleika sem kunna að reynast í henni o.s.frv. Það er mikilvægt ef við ætlum að láta þetta tæki virka fyrir okkur til framtíðar, óháð því hvaða ríkisstjórnir eru við völd, að verklag okkar breytist. Fjármálaáætlun getur ekki aðeins verið plagg lagt fram af framkvæmdarvaldi sem þinginu er einfaldlega ætlað að stimpla og fikta ekki nokkurn skapaðan hlut í.

Við eigum töluvert við fjárlög á hverju ári. Við lagfærum þá veikleika sem við teljum vera í þeim. Við hlýðum á gesti sem koma fyrir fjárlaganefnd og reynum að bregðast við á einhvern hátt. En því er ekki til að dreifa í fjármálaáætlun. Það er eins og hvergi megi snerta á henni eða breyta frá þeirri uppröðun sem hún hefur fengið af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þetta held ég að við verðum að lagfæra.

Það er eitt sem ég myndi vilja nefna undir það síðasta. Það er mjög gagnrýnivert hversu óljós áform stjórnvalda eru varðandi skattamál, sérstaklega tekjuskattskerfisins. Við höfum heyrt endurteknar yfirlýsingar um að lækka eigi tekjuskatt um allt að 14 milljarða, jafnvel þegar á næsta ári, án þess að það hafi verið útfært með nokkrum hætti hvernig hið nýja tekjuskattskerfi eigi að vera. Við höfum heyrt, og það er í raun og veru það eina sem við sjáum út úr fjármálaáætlun, gert ráð fyrir 1% lækkun neðra þreps en jafnframt er talað um aðrar útfærslur.

Ég myndi fagna því ef ríkisstjórn sem vill efla Alþingi og boðar þverpólitískara samstarf innan þingsins myndi efna til þverpólitískrar vinnu um nýtt tekjuskattskerfi. Það er vissulega mikilvægt að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, ekki hvað síst verkalýðshreyfinguna, um þróun þess, en það er líka mikilvægt að minni hluti og meiri hluti hverju sinni komi sér saman um það hvernig tekjuskattskerfið eigi að vera byggt upp, svo að ekki sé talað um ef hugmyndin er að fara í verulega uppstokkun á kerfinu. Þess vegna held ég að það væri fagnaðarefni ef slík vinna yrði færð inn í þingið, ekki bara þegar ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um það hvernig hún vilji framkvæma þetta.

Það eru fleiri þættir sem mætti nefna. Ég ætla ekki að fara yfir málefnasviðin hvert um sig. Ég hef áður sagt að forgangsröðun fjármálaáætlunar sé mjög í takt við forgangsröðun fjármálaáætlunar síðustu ríkisstjórnar, þó svo að nokkru sé bætt í útgjöldin í þessari hér. Það er þverpólitísk samstaða um það í þinginu að forgangsraða ríkisfjármálunum í þágu heilbrigðiskerfis og menntakerfis.

Það eru augljósir veikleikar í fjármálaáætluninni þegar kemur að samgöngukerfinu okkar, sem hefur ítrekað verið bent á, og alveg ljóst að viðhaldi vegakerfisins okkar er orðið verulega ábótavant eins og umræðan um nýtingu ríkisstjórnarinnar á varasjóði til að bæta í viðhald veganna hefur sýnt. Það er alveg ljóst að miklu meira þarf til þegar við horfum á að hagvöxtur undangenginna ára hefur verið drifinn áfram af ferðamönnum sem aka þjóðvegina og að slitið á vegunum hefur aukist verulega en útgjöld til viðhalds hafa engan veginn fylgt því.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta er óábyrg ríkisfjármálaáætlun. Hún grefur undan efnahagslegum stöðugleika til lengri tíma litið. Hún dregur engan lærdóm af 100 ára sársaukafullri lærdómssögu okkar í hagstjórn, heldur endurtekur þvert á móti þau mistök sem ítrekað hafa verið gerð af hálfu okkar stjórnmálamanna á nákvæmlega þessum tímapunkti í hagstjórninni. Þetta gengur ekki lengur.

Það er löngu tímabært að stjórnmálamenn fari að axla efnahagslega ábyrgð. Það er ekkert vandamál að reyna að verða við óskum allra þegar vel árar í afkomu ríkissjóðs eins og nú er, vandamálið er að reka ríkissjóð sem þolir hagsveiflurnar sem eru svo miklar hér á landi. Það krefst pólitísks hugrekkis og ábyrgðar. Því miður skortir verulega á það í þessari fjármálaáætlun.