148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:15]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér líður pínulítið eins og heilögum Frans frá Assisi sem sagt var um að hann hafi predikað yfir fuglunum og vonað að það kæmist á einhvern hátt til skila þótt þeir hafi kannski ekki beinlínis hlustað mikið á hann. Ég er hér að predika yfir þessum auðu stólum, mestmegnis. Ég þakka að sjálfsögðu hv. þingmönnum fyrir að sitja hér og hlusta, en ég geri mér vonir um að þessir auðu stólar muni þá einhvern veginn meðtaka það sem ég hef hér að segja og koma því til skila.

Við höfum heyrt margar góðar ræður þar sem fjallað er um forsendur fjármálaáætlunar, efnahagslegar og haglegar forsendur hennar. Ég ætla að nálgast þetta úr dálítið annarri átt, nota þann tíma sem ég hef til að gera að umtalsefni það sem varðar þá nefnd þar sem ég sit og einbeita mér sérstaklega að því sem varðar menntahluta þeirrar nefndar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru gefin fyrirheit um stórfellda uppbyggingu innviða á sviðum sem hafa lengi verið vanrækt, þá ekki síst í mennta- og menningarmálum. Við höfum oft heyrt talað um stórsókn í menntamálum af fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Í ljósi þess veldur þessi fjármálaáætlun vissum vonbrigðum. Þannig munu framlög til háskóla ekki ná markmiðum um meðaltal OECD-ríkjanna og síðan Norðurlandanna á tímabilinu eins og lofað var og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar. Og innan framlaga til háskóla eru mjög stórar og fjárfrekar byggingarframkvæmdir við Hús íslenskra fræða og ekki síður fjárfrek sérverkefni á sviði tungutækni. Þetta eru verkefni sem ber að fagna en kannski varhugavert að reikna þau beinlínis sem framlög til háskóla.

Til framhaldsskóla verður ekki varið auknu fjármagni nema þá nokkurn veginn sem svarar því sem sparaðist við styttingu framhaldsskólanna. Framlög til lista og menningar munu sennilega beinlínis lækka á tímabilinu.

Svipaða sögu er að segja um framlög til löggæslunnar í landinu sem munu ekki svara þörf fyrir meiri mannafla í lögreglunni eins og við höfum nú heyrt mikið talað um að undanförnu að verði sífellt meiri, bæði til að mæta auknum ferðamannastraumi og alls konar nýjum verkefnum í sífellt flóknari heimi. Það er fagnaðarefni að fjármagn skuli veitt í aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu en ekki er hægt að halda því fram að sú áætlun sé fullfjármögnuð þar sem hún hefur ekki verið kostnaðarmetin að fullu. Það vantar þannig sitthvað upp á metnað ríkisstjórnarinnar í málefnum fjölmiðlunar, persónuverndar og hvað varðar vernd réttinda einstaklinga og eins virðist lítill áhugi á að bæta stöðu útlendinga og fanga á tímabilinu.

En ég ætla sem sé einkum að gera að umtalsefni það í þessari fjármálaáætlun sem varðar menningu, listir, íþróttir og æskulýðsmál, eins og það heitir. Í greinargerð með áætluninni segir, með leyfi forseta:

„Helstu breytingar málefnasviðsins skýrast af áherslum í stjórnarsáttmálanum. Þar má nefna hækkun á framlögum vegna verkefnis um máltækni, eflingu höfuðsafnanna þriggja til að styrkja rekstur sameiginlegra og sértækra verkefna og framlags til að styrkja starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.“

Í ljósi þessara orða vekur það nokkra athygli að framlög til þessa málefnasviðs í heild eiga að fara lækkandi á tímabilinu.

Það segir líka í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Í mennta- og menningarmálum ber hæst verulega aukin framlög til háskólastigsins í samræmi við stjórnarsáttmála. Framlög til háskólanna voru aukin um ríflega 2 milljarða kr. í fjárlögum 2018. Gert er ráð fyrir áframhaldandi auknum framlögum út áætlunartímann en alls hækka framlög til sviðsins um ríflega 2,8 milljarða kr. í samræmi við markmið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að framlög til háskóla nái meðaltölum OECD. Á sviði menningar og lista verður varið ríflega 750 millj. kr. til aðgerðaáætlunar um máltækni á áætlunartímabilinu en áður hefur hátt í 500 millj. kr. verið varið til verkefnisins.“

Þrátt fyrir þá viðleitni vantar enn dálítið upp á að framlög til háskólanna nái meðaltölum OECD á tímabilinu, hvað þá að Ísland verði fyrir ofan miðju eða nálgist önnur ríki Norðurlandanna.

Máltækniverkefnið er sagt vera fullfjármagnað. En það hafa samt komið fram þær raddir að þar kunni að vanta upp á tæplega hálfan milljarð kr. til að sú áætlun sé fullfjármögnuð.

Í fjármálaáætlun er lýst yfir vilja til að styrkja höfuðsöfnin þrjú, Þjóðminjasafn og Listasafn og Náttúruminjasafn Íslands. Sérstaklega er tekið er fram að unnið verði að málefnum náttúruminjasafnsins á tímabilinu, sem ber að fagna. Þó er ekkert í hendi hvað það varðar en ástæða er til að minna á að það er ekki vansalaust fyrir þjóð sem á svo mikið undir náttúrunni að ekki sé til staðar safn um íslenska náttúru. Slíkt safn var raunar til undir lok 19. aldar og hýst heima hjá skáldinu og náttúrufræðingnum Benedikt Gröndal. Við erum eftirbátar hans nú á dögum.

Þjóðminjasafnið ber ábyrgð á 60 stöðum um allt land sem eru í mjög misjöfnu ásigkomulagi. Þar eru mikil tækifæri en líka mjög krefjandi verkefni sem ekki mega bíða öllu lengur því að þarna eru mikil menningarverðmæti í húfi sem ekki verða endurheimt. Gætt hefur togstreitu milli sveitarstjórna og safnstjóra og tekjustofnar safnanna eru óljósir um leið og söfnunum eru lagðar mjög ríkar skyldur á herðar um rekstur og viðhald. Það er mjög mikilvægt að tryggja fjármagn til viðhalds þessara staða og uppbyggingar en þess sér þó ekki stað í fjármálaáætlun að gert sé ráð fyrir því. Vert er að benda á í því sambandi að söfnin víða um land geta gegnt miklu stærra hlutverki í ferðamannaþjónustu en nú er.

Ekki er fjallað sérstaklega um það mikla fjársvelti sem skólabókasöfn hafa búið við mörg undanfarin ár með þeim afleiðingum að þau hafa ekki getað keypt nýjar eða nýlegar bækur handa nemendum að lesa, sem hefur svo aftur hefur bitnað á lestri, lestrarkunnáttu, og jafnvel almennu læsi meðal unglinga. Yfirvöld virðast ekki hafa komið auga á samhengið sem er milli lestrarkunnáttu og þess að stunda lestur á hverjum degi. Enn sem komið er eru bækur mjög gott tæki til þess að lesa.

Ríkið rekur ýmsar menningarstofnanir. Þær stofnanir skapa eins og við vitum undirstöðu fyrir alls konar fjölþætta menningar- og listastarfsemi í landinu og þjóna landsmönnum öllum og sinna auk þess sumar stjórnsýslu á sínum sviðum. Í fjármálaáætlun er sett fram það markmið að bæta aðgengi að menningu og listum svo fleiri landsmenn fái notið þeirra gæða. Það er lofsvert, þó að reyndar sé ekki að sjá útfærslu á þeim áformum.

Ríkisútvarpið er meðal þessara menningarstofnana. Það hefur hin seinni ár verið rekið með mjög einkennilegu rekstrarfyrirkomulagi sem er kennt við opinbert hlutafélag. Ég verð að játa að mig skortir hagfræðilega kunnáttu til að skilja það. Þetta er hlutafélag þar sem aðeins einn aðili á hlut. Það er vikið að stofnuninni í kafla um fjölmiðlun og talað um að lögð verði áhersla á að auka framboð á íslensku menningarefni og leiknu efni fyrir börn og fullorðna og talað um að auka samframleiðslu með sjálfstæðum framleiðendum og kaup frá þeim. Allt er þetta lofsvert. Það fer ekki á milli mála mikilvægi stofnunarinnar við þróun og atvinnusköpun í kvikmyndaframleiðslu í landinu og íslensku menningarlífi og það er brýnt að stofnunin hafi þá styrk til að vera slík, vera kvikmyndaframleiðslu og atvinnusköpun þar slíkur bakhjarl og máttarstoð. Allar breytingar á tekjustofnum stofnunarinnar verður að skoða í þessu ljósi, ljósi menningarhlutverks hennar.

Hvergi í fjármálaáætlun er vikið að því að innan Ríkisútvarpsins er að finna eitt stærsta og merkilegasta safn landsins. Það eru hljóðritanir á plötum og segulböndum sem ná aftur til ársins 1930 þar sem er að finna ómetanleg menningarleg og söguleg verðmæti. Það er mjög aðkallandi að það safn komist í stafrænan búning sem fyrst og verði aðgengilegt almenningi á vef stofnunarinnar. Það væri Alþingi til sóma að finna stofnuninni tekjustofna til þess að sinna því.

Menningarsjóðir, svo vikið sé örlítið að þeim, eru margvíslegir. Mig langar til að tilfæra orð úr umsögn Bandalags íslenskra listamanna þar um, með leyfi forseta:

„Stór hópur fjármagnar sín verkefni úr verkefnasjóðum svo sem sviðslistasjóði, tónlistarsjóði eða kvikmyndasjóði og svo eru það starfslaun listamanna sem óhætt er að tala um sem hornstein hins listræna starfs. Stofnanirnar allar og verkefnasjóðir eru á þeim stað í dag að vera á mörkum þess að geta staðið undir skyldum sínum.“

Áfram halda listamenn, með leyfi forseta:

„Starfslaunasjóðirnir eru það sem helst brennur á listamönnum, þeir eru grunnurinn að listsköpun í landinu og á meðan við erum svo upptekin í átaksverkefnum til að ná utan um mál sem setið hafa á hakanum, en eru vissulega þörf, sjáum við starfslaunin rýrna. Starfslaunin og verkefnasjóðirnir eru gólfið í menningaruppbyggingunni, þau mynda stöðugleikann og framvindu í starfi listamannanna.“

Ég tek undir þessi orð og bendi á að þessir sjóðir hafa staðið í stað í níu ár og jafnvel rýrnað, eins og segir í umsögn Bandalags íslenskra listamanna. Kominn er tími til að efla þá á ný og bregðast við þessum áherslum og ábendingum listamanna.

Það er ástæða til að fagna sérstaklega stofnun máltæknisjóðs sem við bindum öll miklar vonir við í þróun hugbúnaðar sem gerir okkur kleift að halda áfram að notast við íslenska tungu í daglegu lífi okkar þegar fram líða stundir og samskipti okkar við tól og tæki munu sífellt aukast.

Ég held að ég muni ekki gera hér sérstaklega að umtalsefni málefni íþrótta og æskulýðsmála eða fjölmiðlunar, það verða væntanlega aðrir til þess, en ég vík lítillega að skólastigunum og fjalla þá fyrst um framhaldsskólastigið. Fram kemur í umsögn Kennarasambands Íslands um fjármálaáætlun að samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafi opinber útgjöld vegna framhaldsskóla á árunum 1998–2016 dregist saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu að raunvirði og á hvern mann, ekki síst eftir hrun. En á árunum 2008–2016 lækkuðu opinber útgjöld til framhaldsskóla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu um 8,1%, að raunvirði 6,6% og 11,1% á hvern mann.

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 er gert ráð fyrir að þessi framlög verði nokkuð hækkuð til samræmis við fyrirheit um stórsókn í menntamálum en fyrst og fremst eru þessar hækkanir þó tilkomnar þannig að ekki stendur til að draga það fjármagn út úr rekstri framhaldsskólanna sem sparaðist við styttingu námstímans eins og áður voru áform um að gera. Kennarasambandið bendir á í umsögn sinni að gengið sé út frá mikilli fækkun ársnemenda í framhaldsskólum til 2020 vegna styttingar náms í þrjú ár og fækkunar í árgöngum sem leiði til hærra framlags á hvern ársnemanda að óbreyttum fjárframlögum. Hins vegar sé ekki um að ræða raunútgjaldaaukningu til skólastigsins. Það er ástæða til að taka undir með Kennarasambandinu þegar það segir vandséð að þessi breyting dugi til að byggja upp innviði skólanna eftir langvarandi fjársvelti. Bæta þarf bæði kennslu og námsframboð og efla stoðþjónustuna.

Styttingin hefur líka bitnað á nemendum, eins og við vitum. Hún hefur bitnað á þjónustu og endurnýjun búnaðar og ekki síst hefur setið á hakanum gerð námsbóka á öllum skólastigum svo tala má um ófremdarástand á því sviði. Ekki eru öll kurl komin til grafar með áhrif af styttingu námstímans til stúdentsprófs en það er brýnt að gerð verði úttekt á þeirri aðgerð, sem ekki virðist hafa orðið til þess að minnka brottfall nemenda eins og stefnt var að. Álag hefur mjög aukist á nemendur vegna samþjöppunar í námi og lengri skóladags, sem gefur svo aftur minni tíma til félagslífs og tómstundastarfs. Meta þarf hvaða áhrif þessi stytting hefur haft á námsframboð, undirbúning fyrir háskólanám, tungumálakunnáttu og stöðu íslenskra framhaldsskólanemenda í samanburði við erlenda jafnaldra þeirra.

Undir þessum lið er líka vikið að tónlistarfræðslu, en um hana gilda lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sem taka til tónlistarskóla sem eru reknir af sveitarfélögum og annarra sem njóta til þess styrks. Ekkert kemur fram í fjármálaáætlun um áform ríkisstjórnarinnar í þeim efnum sem mjög brýnt er að standa vörð um.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Ég minni á í sambandi við háskólastigið hið eindregna loforð stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu þingkosningar að framlög til háskólastigsins skyldu ná viðmiðum OECD (Forseti hringir.) 2020 sem ekki ganga hér eftir. Ég minni að lokum á húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands sem brýnt er að bæta úr, en hef ekki fleiri orð um það að sinni.