148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:38]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni þessa glöggu ábendingu sem ég ber ekki brigður á og held að sé alveg hárrétt. Ég tel að það sé reyndar töluvert áhyggjuefni hvernig háskólastigið hefur verið leikið hér á landi í mörg ár, fjársvelt, hvernig það hefur verið rekið. Það birtist með margvíslegu móti, til að mynda, sem mér gafst ekki ráðrúm til að koma inn á í ræðu minni, hefur það verið rekið mjög mikið með stundakennurum og doktorsnemum sem hafa þurft að sinna almennri kennslu úr hófi fram á háskólastigi. Þeir hafa verið á sultarlaunum í sínum störfum en háskólarnir hafa hins vegar ekki treyst sér til að ráða það fólk sem þarf að ráða til þess að sinna rannsóknum og kennslu svo að vel sé. Það hefur bitnað á bæði vísindastarfi þessara háskóla og gæðum starfsins. Þetta hefur líka birst í því að þegar doktorsnemar ljúka prófum sínum hafa þeir að minna að hverfa, þeir geta ekki treyst á að fá stöður innan háskólanna vegna þess einfaldlega að eðlileg endurnýjum á sér ekki stað. Þetta fjársvelti háskólanna og háskólastigsins birtist með margvíslegu móti og sýnir okkur hversu brýnt það er að auka verulega fjárframlög til háskólanna og bæta rekstrarskilyrði þeirra.