148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:46]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að rifja upp — þetta var mjög stutt og snörp og ágæt ræða hjá hv. þingmanni, en samt er nú dottið úr mér hver var nákvæmlega spurningin varðandi framhaldsskólana. (Gripið fram í.) — Það var engin spurning, það var meira svona hugleiðing? (KÓP: Já.) Einmitt. En ég held að við deilum sýn okkar á það og að það hafi verið óráð, eins og hv. þingmaður orðaði það, að stytta framhaldsskólana í því fljótræði sem það var gert.

Ég myndi ekki taka undir orðalagið „alla leið niður í segulbandasafn Ríkisútvarpsins“, sem hv. þingmaður notaði. Það er að mínu mati eitt af höfuðsöfnum landsins þó að það hafi ekki slíka formlega stöðu. Það er dæmi um safn sem hefur verið vanrækt í mörg ár og liggur undir skemmdum vegna þess að ekki hefur gefist fé til að koma því í viðunandi sómasamlegan búning. Ég tók þetta safn sem dæmi vegna þess að eins og hv. þingmanni er kunnugt um kynntist ég því safni nokkuð vel í fyrri störfum mínum.

En ég hélt því hins vegar ekki fram í ræðu minni, ég hef kannski tjáð mig óljóst, að höfuðsöfnin þrjú væru fjársvelt eða bæru skarðan hlut frá borði í þessari fjármálaáætlun. Ég nefndi hins vegar varðandi náttúruminjasafn að gaman væri að sjá frekari útfærslu á því hvernig ríkisstjórnin hyggst efla það safn og sjá til þess að það (Forseti hringir.) vaxi og dafni.