148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefur eitthvað misskilið eða ég ekki talað nógu skýrt ef það hefur komið út eins og mér fyndist segulbandasafn Ríkisútvarpsins vera eitthvað til að fara alveg niður í, að það hafi eitthvað með mikilvægi þess að gera. Sjálfur hef ég notað það safn töluvert. Ástæðan fyrir því að ég nefndi það sem dæmi var að það greip huga minn og athygli þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns.

Það sem ég á hins vegar við þegar ég tala um „alveg niður í safnið“ er að hér erum við að fjalla um fjármálaáætlun en ekki fjárlög. Ég hef hvergi séð þess stað í fjármálaáætlun að þetta safn eða hitt fái aukið fjármagn eða að dregið verði úr, þau fái ekki nægilega mikið eða að það mætti vera meira. Sem er vissulega eitthvað sem hægt er að lesa með góðri athygli út úr fjárlögum. Þess vegna bað ég hv. þingmann um að lóðsa mig í gegnum það, því að ég hafði einhvern veginn tekið því þannig, það væri þá ekki í fyrsta skipti sem ég misskil hlutina allhrapallega, að hér værum við að fjalla um heildarútgjaldarammana til ákveðinna málaflokka.

Hv. þingmaður fór um það nokkrum orðum í ræðu sinni. Þess vegna spyr ég hvar maður sjái þess stað í því máli sem við fjöllum um hér, þ.e. ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára, hver framlögin verða til þessara einstöku safna og raunar fleiri stofnana eða liða sem hv. þingmaður tiltók í sinni ágætu ræðu.