148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:50]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fjármálaáætlun er vikið að ýmsum þeim stofnunum sem þurfa á framlögum að halda af fjárlögum þeirra ára sem undir eru í fjármálaáætlun. Þar á meðal eru jú þau þrjú höfuðsöfn sem vikið var að hér áðan, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. Ég notaði hins vegar tækifærið, leyfði mér það, að minna á að það eru ýmis fleiri söfn sem þurfa á því að halda að einhver muni eftir þeim og að þau séu styrkt.

Hv. þingmaður hjó eftir því og ég gleymdi að nefna það áðan að ég nefndi sérstaklega skólabókasöfn og langvarandi fjársvelti þeirra. Ég nefndi sérstaklega í samhengi við þann lestrarvanda sem verið hefur við að etja hér í nokkur ár og benti á að það væri til vinnandi að efla slík söfn sem innlegg í baráttuna gegn ólæsi. Það kann að vera að slík umræða eigi heima undir öðrum hatti. Við eigum eflaust eftir að ræða það betur síðar og á meira viðeigandi vettvangi. Ég tel þó að það sé alveg þess virði að minna á slík söfn. (KÓP: Við erum sammála í söfnunum.)