148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni kærlega fyrir þetta andsvar. Varðandi sýslumannsembættin, ef ég byrja á því. Þau voru 26 fyrir kannski 20 árum, 26 um allt land. Ekki í hverjum firði en á hverju svæði fyrir sig var sýslumaður sem var útvörður framkvæmdarvalds í héraði og fólk leitaði til hans. Það voru nú ekki lögmenn á hverju strái, alla vega ekki þá, en fólk gat leitað á þessa skrifstofu og fengið þar leiðbeiningar a.m.k. og margháttaða aðstoð varðandi ýmsa hluti.

Síðan var þetta sameinað, nokkur embætti lögð niður og síðan sameinuð jafnframt því sem lögreglan var aðskilin frá sýslumannsembættum. Þá var þeim fækkað niður í níu, hafði reyndar fækkað örlítið áður en það gerðist. Ég taldi það heldur langt gengið vegna þess að ég hélt allan tímann að skynsamlegt væri að hafa sterkari einingar, sérstaklega í dreifðari byggðum. Þá gæti sami maður bæði þjónað sem sýslumaður og lögreglustjóri. Það var mín skoðun en hún varð nú undir.

En það er mjög mikilvægt að efla þessi embætti þannig að þau deyi ekki drottni sínum eins og þau hafa gert hingað til. Þau eru níu núna. Það er stórhætta á því að ef fjárveitingar verða dregnar saman, eins og er verið að gera. Mjög mörg þeirra eru rekin með miklum halla. Ekki eru sett verkefni til þeirra eins og lofað var. Því var lofað, bæði við fækkun þeirra og við aðskilnað lögreglu frá sýslumönnum var því lofað að sett yrðu aukin verkefni á þau embætti sem eftir voru. (Forseti hringir.) Það hefur ekki gengið eftir.