148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:04]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni andsvarið. Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir verkefni lögreglu? Það er augljóst. Lögreglan nálgast það meir og meir að verða svokölluð útkallslögregla, eins og var í fyrndinni þegar menn biðu við símann eftir útkalli. Ef það vantar mannskap endar þetta þannig. Þeir eru stöðugt í útkallsverkefnum og geta ekki sinnt neinni frumkvæðisvinnu. Það er fyrsta afleiðingin. Lögreglan á fullt í fangi með að sinna þeim beiðnum sem koma til hennar, ef forgangsverkefni berast er þeim er sinnt og öðrum verkum ýtt til hliðar. Ef ekki er nógu mikið afl í rannsóknum forgangsraða þeir þar. Innbrotum er ýtt til hliðar vegna þess að menn fara frekar í slagsmálin og svo er slagsmálunum ýtt til hliðar því að menn fara frekar í kynferðisbrotin. Það verða því mjög mörg mál og málefnasvið út undan. Menn hætta að sinna óskoðuðum bílum eða þeim sem eru ekki tryggðir, það er ekki tími til þess. Menn eru bara að slökkva elda og þeir taka auðvitað stærstu eldana fyrst. Þetta er það fyrsta sem gerist. Mál fyrnast og hlaðast upp. Það eru augljósustu afleiðingarnar.

Aðrar afleiðingar eru þær að öryggi minnkar. Öryggistilfinning borgaranna minnkar í kjölfarið. Þetta er í stuttu máli, hv. þingmaður. Annað sem gerist og hefur gerst á Íslandi: Þegar maður metur löggæsluþörf er landið dreifbýlt og samgöngur víða slæmar, sérstaklega á vetrum. Það er óviðunandi þegar svona fáir lögreglumenn eru að geta ekki sinnt dreifbýlari svæðum og vera kannski einn lögreglumaður á mjög stóru svæði.