148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að fjárlaganefnd sé að kalla eftir viðbrögðum við þeim mikla vanda sem sýslumannsembættin búa sannarlega við. Þau eru að draga saman. Ég hef heyrt að þau séu virkilega að draga saman seglin, sérstaklega úti á landi. Þegar átti að færa verkefni til sýslumannsembætta fyrir nokkrum árum tókst það fremur illa. Smáverkefni voru flutt frá dómsmálaráðuneytinu, eða þáverandi innanríkisráðuneyti, til nokkurra sýslumanna. Þetta voru yfirleitt, þó ekki í öllum tilvikum, fremur smá verkefni. En ég vil benda á mjög gott verkefni sem fór fram, það er lengra síðan það var, kannski 10–15 ár, þegar innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar var flutt undir sýslumanninn á Blönduósi. Það hefur tekist afskaplega vel og fleira slíkt hefur verið gert, en það þarf auðvitað að gera í miklu meira mæli. Það er fullt af tækifærum þarna.

Ég vil benda hv. þingmanni á að fjárlaganefnd ætti hugsanlega að horfa svolítið út fyrir dómsmálaráðuneytið og á önnur ráðuneyti, því að viðbrögðin þar voru engin. Ég held ég geti fullyrt að næstum engin verkefni hafi komið frá öðrum ráðuneytum en fagráðuneytinu sjálfu. Yfirleitt voru þetta smáverkefni eins og ég nefndi áðan.

Ég nefndi í fyrra andsvari að það væru ýmis tækifæri. Ég nefndi Fiskistofu, þeir eru með menn um landið sem eru á eigin vegum undir Fiskistofu. Ég get nefnt tollverði úti um landið, undir tollstjóra að sjálfsögðu. Fleiri dæmi eru Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun. Það eru fullt af starfsmönnum á fleygiferð um landið með starfsstöðvar, eða ekki, sem hægt (Forseti hringir.) er að samnýta undir sýslumannsembættum.