148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta hafa verið ágætar umræður hér í dag um ríkisfjármálaáætlun. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem meiri hlutinn leggur áherslu á. Töluvert hefur verið fjallað, a.m.k. af framsögumönnum nefndarálita, um spárnar sem liggja til grundvallar. Ég ætla ekki að segja að lítið hafi verið gert úr þeim en ég held að við séum öll sammála um að við þurfum að eignast breiðari líkön. Áætlunin byggist á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í febrúar 2018. Þar kemur fram að spennan í þjóðarbúskapnum fari minnkandi og að dregið hafi úr líkum á ofhitnun hagkerfisins. Spáin gerir ráð fyrir að í hönd fari aðlögun hagkerfisins frá kröftugum vexti heildareftirspurnar undanfarin ár að hægari vexti næstu misserin og það haldist í ágætu jafnvægi á tímabilinu.

Þjóðhagsspá Hagstofu Ísland er í sjálfu sér mjög lík öðrum efnahagsspám, bæði Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem þó gera ráð fyrir ívið meiri hagvexti næstu þrjú árin. Verðlagshorfurnar eru örlítið hagfelldari samkvæmt spá Seðlabankans en í spám Hagstofu og AGS en AGS gerir líka ráð fyrir að atvinnuleysi vaxi hraðar eftir því sem hægir á vexti efnahagsumsvifa. Enginn þessara aðila eða annarra sem spá fyrir um efnahagsframvindu á Íslandi gerir ráð fyrir snörpum samdrætti efnahagsumsvifa á næstu misserum. Í skýrslu Landsbankans sem kom út í morgun, þar sem talað er um að verðbólguhorfur séu almennt góðar og líklegt að verulega dragi úr spennu, kemur fram að ekki sé þörf fyrir sérstaka aðlögun eða lendingu hagkerfisins þar sem ójafnvægi hafi ekki myndast að nokkru ráði eins og oft eftir langt þenslutímabil. Það markist af því að uppsveiflan hafi ekki verið skuldsett í sama mæli og áður. Það má kannski segja að skýrslan skjóti sterkari stoðum undir forsendur fjármálaáætlunar og samhliða minnkandi atvinnuvegafjárfestingu aukast fjárfestingar hins opinbera.

Í praxís hefur ráðuneyti fjármála gert samkomulag við Hagstofuna um samstarf sem varðar upplýsingasamskipti þegar verið er að búa til spár og sviðsmyndagreiningar. Það er verið að undirbúa þróun þjóðhagslíkans með tilliti til hagstjórnar hins opinbera. Hagstofan er að vinna að því að skilgreina verkefnið og efla spáteymi eins og kom fram í máli hæstv. forseta þingsins hér í dag. Hann ræddi um styrkingu þingsins hvað þetta varðaði og vona ég að það geti gengið eftir. Í sjálfu sér er hægt að fara mjög víða í þessari áætlun en við vitum auðvitað öll að spár eru ekki óskeikular. Þær duga kannski í eitt, tvö ár eitthvað slíkt, sérstaklega í litlu landi eins og okkar. Það breytir því þó ekki að þessi spágerðalíkön leita gjarnan jafnvægis í framreikningum til lengri tíma, en auðvitað geta orðið þar frávik.

Að mati okkar sem stöndum að þessu stjórnarsamstarfi teljum við það vera fyllilega raunhæfa sviðsmynd að hagkerfið geti aðlagast hægari vexti og haldið síðan áfram í jafnari takti, en auðvitað verða allar hagaðilar að leggjast á eitt til þess að það geti orðið. Þetta er innlegg ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða þar sem við göngum út frá afkomuafgangi og skuldalækkun, en auðvitað ætlum við líka að fara í talsverða innviðauppbyggingu, enda hagvöxtur að hægjast eins og ég sagði áðan. Við stefnum að því að stuðla að félagslegum stöðugleika. Talað er um að lækka tryggingagjald, endurskoða tekjuskatt og bótakerfi til hagsbóta fyrir þá tekjulægstu. Við höfum hækkað atvinnuleysisbætur. Það á að auka rétt til fæðingarorlofs o.s.frv. Það er í sjálfu sér ekkert náttúrulögmál eða efnahagslega óhjákvæmileg nauðsyn að í kjölfarið á svona löngu hagvaxtarskeiði komi harkaleg lending. Mér finnst skýrsla Landsbankans kannski styðja við það. Stefnt er að því að heildarendurskoðun fari fram á tekjuskattskerfinu, bæði til að gera það skilvirkara og gegnsærra og til að huga að því sem við höfum nokkur talað fyrir, þ.e. að breyta persónuafslættinum þannig að það nýtist hinum launalægstu og fari lækkandi eftir því sem laun hækka. Við teljum að til þess þurfi víðtækt samráð og stuðning aðila vinnumarkaðarins.

Ég ætla að stikla á stóru í þessu meirihlutaáliti okkar enda tíminn kannski ekki mikill. Eitt af því sem talað hefur verið um hér er að boðað þak á endurgreiðslur, vegna kostnaðar við rannsóknir og þróun, verði fjarlægt. Ég tel að það sé jákvætt skref. Það þarf líka að huga að skattalegum hvötum sem koma sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum vel. Varðandi kolefnisskattinn er mikilvægt að við skoðum jöfnunaraðgerðir gagnvart landsbyggðinni. Ég er hlynnt því að við leggjum á kolefnisskatt og hækkum hann en ég tel að við þurfum líka að huga að því að ekki búa allir við að geta skipt yfir í annan orkugjafa. Samgöngur gætu þá orðið mun dýrari og allur flutningur til hinna dreifðu byggða, hvort sem það heitir matur eða önnur vara sem kostar gjarnan mun meira en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Frú forseti. Það kemur fram í nefndarálitinu að rekstrargjöldin hækka í heildina um 117,5 milljarða, eða 19% á tímabilinu. Við teljum það vera töluvert mikla útgjaldaaukningu en teljum að við getum viðhaldið stöðugleikanum þrátt fyrir það til þess að það geti gengið upp. Útgjöld til velferðarmála eru gríðarlega mikil. Miðað við 2017 verða rekstrarútgjöld til velferðarmála um 85 milljörðum hærri árið 2023 en í fjárlögum sem voru sett 2017. Það er í kringum 78% af heildarhækkun allra málefnasviða ef varasjóðurinn er undanskilinn. Síðan er farið í hvern einstakan málaflokk, hvernig hann hækkar. Mig langar að nefna hér fjárfestingar og annað slíkt varðandi almanna- og réttaröryggi. Talað er um að verja 14 milljörðum í að kaupa þrjár nýjar björgunarþyrlur fyrir Landhelgisgæsluna sem ég tel afskaplega mikilvægt og löngu tímabært að gera, enda höfum við séð það undanfarið að þörf er fyrir hendi.

Hér var talað um sýslumenn og lögreglu. Ég hef talað mikið fyrir þeim málaflokki frá því að ég kom á þing. Ég tek undir það. Ég var hér inni sem varaþingmaður og greiddi þessari aðgreiningu ekki atkvæði af því ég hafði efasemdir um að verkefnaflutningurinn yrði eins og þar var gert ráð fyrir, sem hefur komið á daginn. Það er eitthvað sem þessi ríkisstjórn hefur tækifæri til að breyta. Það er rétt að það er bara innanríkisráðuneytið sem hefur flutt verkefni. Nú er að koma skýrsla, vonandi fljótlega, frá Ríkisendurskoðun þar sem þessi starfsemi er tekin út, þ.e. hvernig tekist hefur til eftir að embættin voru sameinuð.

Varðandi samgöngu- og fjarskiptamálin: Gríðarlega mikið er sett í það og ekki bara í vegi og hafnir heldur klárum við líka verkefnið Ísland ljóstengt. Það skiptir máli sem og að hafa, bæði atvinnulíf og mennta- og heilbrigðiskerfið, viðunandi netöryggi. Gistináttagjaldið er eini nýi tekjustofninn sem sveitarfélögin fá. Þau hafa ekki fengið nýjan tekjustofn afskaplega lengi. Það er í stjórnarsáttmálanum að gistináttaskatturinn fari þangað eða gjaldið að einhverju leyti eða öllu. Ég held að það skipti sveitarfélögin gríðarlegu máli. Þau eru að takast á við flókin verkefni sem ríkið hefur falið þeim undanfarin ár sem og aukna ferðamennsku. Við þurfum líka að huga að því, þegar verið er að tala um gistináttaskatta og annað slíkt, eins og bent er á í áliti efnahags- og viðskiptanefndar, að það eru í kringum 2.000 bílar sem eru í raun gistibílar sem bera enga slíka skatta. Við þurfum að skoða hvort við getum ekki séð út úr því. Ferðaþjónustan er okkar stærsti atvinnuvegur núna og skilar gríðarlegum gjaldeyristekjum. Við þurfum að ná betur utan um hana á alla kanta. Þess vegna er hagskýrslugerð mjög mikilvæg um ferðaþjónustuna, til þess meðal annars að reyna að sjá fyrir hvernig samdrátturinn verður. Hann verður einhver, þetta er slík sprenging sem orðið hefur að enginn getur búist við því að það haldist um aldur og ævi, enda væri það ósjálfbært og óráðlegt að öllu leyti.

Við erum að vonast til þess að þetta sé eitthvað sem hægt verði að setja af stað, að Hagstofan geti sett þetta af stað og einhverjir fleiri til þess að við náum sem fyrst upplýsingum saman um þetta. Það er sorglegt í svona stórum atvinnuvegi að slíkar upplýsingar skuli ekki vera til staðar, en það er fyrst og fremst vegna þess að hann hefur vaxið svo hratt að við höfum ekki getað haldið í við hann. Það er líka mikilvægt, þegar við tölum um að gjaldeyristekjunum sé haldið aðskildum í þeim geira, í hagskýrslunum, þeim sem myndast hér innan lands og svo auðvitað erlendis. Við erum að bæta verulega í varðandi umhverfismálin, 35%. Ég held að annað eins hafi ekki verið sett fram frá því umhverfisráðuneytið varð formlega til og ég er afskaplega ánægð með það. Menningu og listir og íþrótta- og æskulýðsmál, þ.e. málefnasvið 18, þarf ráðherra að fara yfir. Það hefur oft verið talað um alla þessa sjóði, hvort sem það eru safnasjóður, húsafriðunarsjóður eða fornleifasjóður eða hvað það nú er. Það þarf að skoða hvort allir þessir sjóðir sinni því sem þeim ber að sinna og hvort þeir hafa fjármagn til þess, hvort við þurfum að gera betur þar. Ég held að við þurfum líka að auka framlög til menningarsafna og safna um hinar dreifðu byggðir. Það skiptir máli í menningartengdri ferðaþjónustu víða um land.

Það er verið að bæta í bæði skólastigin. Talað er um að það séu í kringum 16.000 ársnemendur á framhaldsskólastiginu árið 2020 sem er í kringum 2.500 nemenda fækkun frá 2017. Það gerir að verkum að framlagið á hvern nemenda hækkar eins og stefnt hefur verið að, í kringum 30%. Getum við gert betur? Við getum alltaf gert betur í öllum málaflokkum, þessum sem og öðrum, en ég held að þetta sé skref áleiðis. Við þurfum svo að taka stöðuna líka og sjá hvernig þetta skilar sér. Það sama á í raun við um háskólastigið. Þar er verið að setja inn gríðarlega fjármuni. Ég held að við verðum líka að horfa til þess hvort við séum að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur um að bæta þjónustu við nemendur, hvort sem er að auka gæði kennslu eða sinna rannsóknum eins og við viljum best gera.

Mikið hefur verið rætt hér um heilbrigðismálin, það hefur eiginlega lítið annað komist að í þessari umræðu og margir aðrir málaflokkar orðið út undan. Þetta er vissulega umfangsmesta málefnasviðið hjá ríkinu. Sjúkrahúsþjónustan verður komin upp í 110 milljarða árið 2023. Sú hækkun er sú mesta í samanburði við önnur málefnasvið í fjárhæðum talið. Auðvitað er byggingin þar inni, en hver vill ekki byggja? Það er partur af útgjöldum og þarf að telja það með. En við þurfum líka að gæta að því að Sjúkrahúsið á Akureyri og aðrar heilbrigðisstofnanir um land allt sitji ekki eftir og heilbrigðisráðherra fullvissar mig um að svo sé ekki. Ég hef ekki áhyggjur af því að svo sé ekki. Við erum líka að efla geðheilbrigðisþjónustu, gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað, efla hana. Það er mikilvægt að það verði gert. Það minnkar álag. Þegar heilsugæslan verður komin á þann stað sem við viljum sjá hana minnkar álag á sjúkrahúsþjónustuna að öðru leyti. Það er eitthvað sem er víxlverkandi. Það á líka við um uppbyggingu hjúkrunarheimila og annað slíkt. Ég er nokkuð ánægð með þann þátt og ekki síst skrefin sem stigin eru með því að draga úr kostnaðarhlutdeild sjúklinga, jafna aðgang okkar allra að sérfræðilæknum. Við vitum auðvitað að það er ekki alfarið í okkar höndum. Það er ekki svo að maður geti hrist fram úr erminni lækna sem vilja vera úti um allt land. Að því þarf að huga í sambandi við LÍN, menntun og annað slíkt, að við getum reynt að laða fólk til starfa í hinum dreifðu byggðum. Þetta þarf að spila saman. Ég vona að okkur takist það. En fjarheilbrigðisþjónustan er líka mikilvæg, ég held að hún sé eitt af því sem kemur til með að skipta verulega miklu máli.

Það eru margir aðrir stórir þættir hérna. Við erum að lengja fæðingarorlofið, hækka hámarksgreiðslur. Málefnasviðið hækkar í kringum 9% á milli ára, þannig að það verður í kringum 7,3 milljarða. Það er mikil hækkun í þessari ríkisfjármálaáætlun. Við gerum ekki allt fyrir alla eins og gjarnan er sagt, en það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að mál sem hafa verið í ólestri jafnvel í áratugi verði leyst á fimm árum þó að maður gjarnan vildi. Gríðarlegar fjárhæðir eru undir og eiginlega alls staðar í öllu kerfinu. Ég var að tala um skatta og annað. Það er einn af þeim punktum sem eru í ábendingu meiri hluta fjárlaganefndar. Við tölum um uppbyggingu greinargerðarinnar, þetta með að tengja markmiðin og áherslurnar og allt þetta. Við erum öll sammála um það í fjárlaganefnd og víðar að á þessu þarf að skerpa og gera betur og áréttum hér eitt og annað. Sumt hefur tekist vel, annað gengur mun hægar. Það er okkar að fylgja því eftir að þetta sé gagnsærra og betra.

Áttundi punktur í ábendingum meiri hlutans fjallar um kynjaða fjárlagagerð þar sem komið hefur fram að 93% ráðstöfunartekna vegna samsköttunar nýtist körlum. Þetta kom fram í umsögnum sem nefndinni bárust. Meiri hlutinn telur að út frá jafnréttissjónarmiðum skipti máli að skattkerfi séu ekki með innbyggðan hvata sem geti dregið úr atvinnuþátttöku eða fjárhagslegu sjálfstæði og leggur áherslu á að þetta verði tekið fyrir við endurskoðun skatta- og bótakerfa, hvernig þetta spilar allt saman. Mér finnst þetta afar mikilvægt og kem til með að fylgja því vel eftir að þetta verði gert. Við erum að fóta okkur í verklaginu hér og aðkomu okkar í fjárlaganefnd, hvernig farið er með þetta allt en þetta er alla vega eitt af því sem mér finnst þurfa að vinna með.

Í lokin ætla ég að þakka fjárlaganefnd og félögum mínum þar fyrir mjög góða samvinnu. Fundirnir hafa stundum verið strembnir en mjög góðar og miklar upplýsingar hafa komið fram, við erum sammála því. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson lagði til að við reyndum að sameinast um ábendingar varðandi fjármálaáætlun. Við lögðumst yfir það og niðurstaðan er sú að hér eru 20 sameiginlegar ábendingar sem við leggjum til að fjármálaráðuneytið taki til sín og aðrir ráðherrar líka til að fara yfir og reyna að gera betur þannig að við séum í betri færum til að vinna okkar vinnu við áætlunina í framhaldinu.