148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég deili áhyggjum hennar af eignaójöfnuði sem er hér á landi sem og víða í heiminum. Því miður er þetta alls staðar að gerast og er óþolandi. Við leysum þetta ekki á næstu fimm árum eins og ég sagði frekar en margt annað. Við getum stigið skref og ég tel að við séum að gera margt sem snýr að því að jafna kjör og þátttöku fólks. Ég nefndi til dæmis áðan opinbera aðkomu að kerfi, greiðsluþátttöku og annað slíkt. En eignaójöfnuðinn sem slíkan — þessar 218 fjölskyldur — ég held að við leysum hann ekki hér í þessum þingsal. Við getum auðvitað beitt skattkerfinu, það var eitt af því sem ég nefndi áðan, þ.e. samnýtingu á skattinum. Það er að mínu mati leið vegna þess að það eru karlar í hæsta tekjuskalanum sem þar njóta mest.

Ég myndi vilja fara þá leið og meiri hlutinn beinir því beinlínis til fjármálaráðherra að skoða það. Þannig að það er auðvitað hægt að stíga skref á þessari leið. Mér finnst okkur bera skylda til þess að velta því fyrir okkur. Við höfum ekki lokað neinum dyrum í þessari ríkisfjármálaáætlun, að mér finnst, varðandi það, hvort sem það er að hækka persónuafsláttinn eða það sem ég nefni hér. Ég tel að við höfum ýmis færi til þess að mæta þessu. En ég því miður tel ég að okkur takist ekki að jafna þetta á þessum árum. En auðvitað eigum við að vera með augun opin og horfa í það hvað við getum gert. Ég held að það tvennt sem ég hef nefnt getum við gert ásamt svo mörgu öðru ef við setjumst yfir það.