148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara nefna í því sambandi ályktun frá hagfræðingum OECD sem tala um þennan eignamismun og nauðsyn þess að taka á honum. Það eru mjög margar þjóðir sem hafa brugðist við honum einmitt með stóreignaskatti. Það er eina leiðin sem hægt er að fara til að slá á þennan eignamismun.

Annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um er að talað er um að skoða eigi bótakerfið og skattkerfið og eitthvað svona, maður veit ekki alveg. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera í skattamálum. Í áætluninni er ekki gert ráð fyrir að barnabætur hækki á næstu fimm árum, það er sett þak á barnabæturnar. Sama gerist með vaxtabæturnar. Það er hvergi að finna fjármuni til að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði. Er það áform (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutans og ríkisstjórnar að láta láglaunafólk semja um hærri barnabætur og þá fyrir lægri (Forseti hringir.) laun? Hvernig hugsar stjórnarmeirihlutinn þetta samspil vaxtabóta og launa? Ég bara spyr: Á láglaunafólk að semja um hærri vaxtabætur fyrir lægri laun?