148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:14]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Ég verð þó að segja eins og er að ég hef orðið fyrir persónulegum vonbrigðum með hvernig hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala niður þá miklu útgjaldaaukningu og uppbyggingu velferðarkerfisins sem ég hélt að hv. þingmenn væru hlynntir og er að finna í þessari áætlun. Mín persónulegu vonbrigði eru svo sem algert aukaatriði, en hef ég talið að heillavænlegra væri ef við viðurkenndum í það minnsta það sem vel er gert í staðinn fyrir að nota einhverja frasa og stimpla til að tala það niður til að lyfta sjálfum sér upp.

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom aðeins í lok ræðu sinnar inn á tillögur Samfylkingarinnar. Ég verð að hrósa Samfylkingunni fyrir að leggja fram sínar tillögur. Ég er mjög ánægður með þau vinnubrögð. Ég ætla þó að leyfa mér að spyrja aðeins út í þær tillögur því að ég sé ekki betur en að í þeim, þar sem verið er að leggja til 23 milljarða kr. aukningu ofan á 5.000 milljarða eins og stendur í fréttatilkynningu, sé sagt, með leyfi forseta, hvernig eigi að fjármagna þær:

„Með því að falla frá 1%-stigs lækkun tekjuskatts hefði ríkissjóður um 14 milljarða króna meira á milli handanna á ári.“

Þetta er athyglisvert þar sem í fjármálaáætluninni kemur fram að fara eigi í heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu samhliða endurskoðun bótakerfa með það að leiðarljósi að auka sérstaklega ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og þeirra sem eru með lægri millitekjur, þetta eigi að fara fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins og miðað sé við að þær breytingar, þá er sérstaklega verið að huga að breytingum á persónuafslætti, einhvers konar þrepaskiptingu þar, geti jafngilt þessari 14 milljarða kr. lækkun sem Samfylkingin vill taka af, eins og ég skil hana, til að afnema sínar tillögur. (Forseti hringir.) Er Samfylkingin á móti því að fara í viðræður við aðila vinnumarkaðarins og huga að því að breyta persónuafslættinum? Ef hún er ekki á móti því, hvar ætlar hún þá að fá þessa 14 milljarða sem hún ætlar að spara við það samkvæmt sinni áætlun og nýta í sína 23 milljarða?