148. löggjafarþing — 70. fundur,  7. júní 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stjórnarþingmenn hafa notað ræðutíma sinn til að mæra fjármálaáætlunina og tala hana upp. Ég notaði mínar 20 mínútur til að benda á það sem ég vildi hafa öðruvísi. Ég kannast ekki við að hafa notað einhverja frasa í ræðu minni en þó má það vera. Hún er að mestu leyti sem fylgiskjal með nefndaráliti fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, þannig að það er þá hægt að skoða frasana þar sem ég notaði og hv. þingmanni fannst svona leiðinlegt að heyra.

Hv. þingmaður spyr um 14 milljarðana. Við í Samfylkingunni teljum þennan tímapunkt rangan til að lækka skatta. Þessi kokteill, við höfum séð Sjálfstæðismenn, oftast með Framsóknarmönnum, hræra í slíkan kokteil. Þegar vel árar er bæði bætt í útgjöld og dregið úr tekjunum með skattalækkunum. Við viljum að þetta svigrúm sé nýtt til að mæta barnafjölskyldum, mæta öldruðum, mæta öryrkjum, mæta kalli Landspítalans svo dæmi séu tekin. Við eigum ekki að fara í skattalækkanir á þessum tímapunkti.

Ef hv. þingmaður hefur lesið t.d. athugasemdir ASÍ við þessa fjármálaáætlun og fjármálaáætlanir og fjárlög (Forseti hringir.) eða fjárlagafrumvörp undanfarin fimm ár þarf enginn að velkjast í vafa um hvað verkalýðsfélögin vilja gera hvað varðar samspil bóta og skattkerfisins. (Forseti hringir.) Það þarf ekki að semja um það sérstaklega.